Fyrir okkur öll

„Það er grunvallarforsenda velferðarríkisins að allir þegnar þess leggi til sameiginlegra sjóða eftir getu en njóti þjónustu og stuðnings ríkisins eftir þörfum.“

Þessa setningu má finna í nýrri skýrslu sem fjallar um skiptingu opinberrar þjónustu og fjármagns, eftir þá félaga Þórodd Bjarnason og Jón Þorvald Heiðarsson.

Það er nokkuð til í þessu. Sameiginlegum fjármunum hefur verið misskipt á undanförnum árum og áratugum jafnt eftir landshlutum, þjónustu og almennt til jöfnunar lífskjara og lífsskilyrða í okkar góða landi. Við höfum séð byggðir hnigna vegna opinberra afskipta eða afskiptaleysis eftir því hvernig á það er litið. Við höfum horft upp á þjónustu versna á tilteknum svæðum eða innan tiltekins geira vegna pólitískra ákvarðana. Þetta á m.a. við um heilbrigðismál, sbr. heilsugæsluna í Reykjavík, sjúkrahús, sbr. Landspítalann og fjórðungssjúkrahúsin um allt land. Á sama tíma óx einkageiranum fiskur um hrygg á kostnað almannaþjónustunnar. Vissuð þið að einka-heilbrigðisgeirinn fékk áfram fjármuni til tækjakaupa á meðan opinberar stofnanir voru sveltar – á grundvelli samninga frá fyrri tíð?

Vissuð þið að útgjöld til velferðarmála eru í dag hærra hlutfall af þjóðarframleiðslu en var fyrir Hrun í sjálfu góðærinu?

Það er ekki sjálfsagt að það sé þannig.

Tekjur ríkisins eru sameiginlegar tekjur okkar allra. Þær ber að nota sem slíkar. Við eigum öll hvar sem við búum á landinu rétt þjónustu eftir þörfum sem greidd er úr sameiginlegum sjóði, ríkissjóði. Það á við um þjónustu á sviði heilbrigðismála, menningar, menntunar og stjórnsýslu. Þannig byggjum við landið allt upp, og virkjum það besta sem þjóðin hefur að bjóða á hverju svæði fyrir sig.

Ég hef í gegnum vinnu mína á Alþingi haft áhrif á samdráttur í útgjöldum ríkisins í kjölfarið Hrunsins var beitt þannig að það hefði sem minnst áhrif á opinbera þjónustu og starfsemi um allt land. Það hefur tekist betur en ég hélt sjálfur að gæti gerst þegar ég settist á þing vorið 2009.

Ég mun áfram beita mér fyrir réttlátari skiptingu útgjalda með það að markmiði að við njótum öll góðrar þjónustu eftir þörfum úr sameiginlegum sjóði okkar allra.

Til þess þarf ég að fá stuðning í forvali Vinstri grænna í Reykjavík sem nú stendur yfir.

Ég gef kost á mér í 1. – 2. sæti framboðslista Vinstri grænna í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu í næstu Alþingiskosningum.