Stjórnmála snúast um að hafa áhrif. Í tilfelli ríkisstjórnar Vinstri grænna og Samfylkingar hefur kjörtímabilið snúist um að hafa áhrif á það hvernig samfélag við náum að skapa úr Hruninu. Ég vil frekar tala um uppbyggingu en endurreisn enda hefur aldrei staðið til að endurreisa það sem hrundi heldur að byggja upp annað og betra samfélag.
Við höfum val um að endurtaka leikinn, láta aftur reyna á gamlar aðferðir og taka sénsinn á því að það sem áður brást svo hrapalega geri það ekki aftur. Þeir stjórnmálaflokkar eru til sem bjóða upp á þennan valkost. Enn er boðið upp á einkavæðingu í velferðarkerfinu. Enn er boðið upp á flata lága skatta á alla óháð tekjum eða efnahag. Enn er boðið upp á ókeypist aðgang að sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar. Eina sem til þarf er að veita þeim öruggt brautargengi í næstu kosningum.
Hinn kosturinn er að halda áfram á þeirri braut sem Vinstri græn og Samfylkingin hafa farið. Þrátt fyrir mikinn þrýsting vegna Hrunsins hefur engu sjúkrahúsi verið lokað, engum skóla læst, engin auðlind sett í hendur einkaaðila. Þvert á móti hefur ungu fólki verið auðveldað að sækja skóla, sjúkrahúsum gert kleift að halda uppi öruggri þjónustu og auðlindum komið tryggilega í hendur þjóðarinnar. Þar með er ekki sagt að Hrunið hafi ekki snert þessa málaflokka, langt því frá. En það tókst að halda þeim í vari og vel það. Allt er þetta í andstöðu við þær leiðir sem aðrar þjóðir hafa mátt fara í sínum erfiðleikum. Allt er þetta einnig í andstöðu við pólitíska stefnu hægriflokkanna á Íslandi.
Ég hef tekið virkan þátt í því í störfum mínum á Alþingi að leita nýrri leiða við endurbyggingu landsins eftir Hrun. Það hef ég gert í gegnum störf mín í fjárlaganefnd, sem þingflokksformaður og sem fulltrúi Vinstri grænna í atvinnumálum á þinginu.
Baráttunni um Ísland er ekki lokið. Hún er rétt að byrja.
Ég mun hér eftir sem hingað til leggja mig fram við að færa íslenskt samfélag nær því sem við viljum flest búa við og gera það betra en áður var.
Til þess þarf ég að fá stuðning í forvali Vinstri grænna í Reykjavík sem nú stendur yfir.
Ég gef kost á mér í 1. – 2. sæti framboðslista Vinstri grænna í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu í næstu Alþingiskosningum.