Verri en bankarnir

Megin hlutverk lífeyrissjóðanna er að greiða sjóðfélögum lífeyri, tryggja þá fyrir tekjumissi í kjölfar örorku og stuðla að fjárhagslegu öryggi maka og barna við andlát sjóðfélaga. Lífeyrissjóðirnir fjármagna rekstur sinn með iðgjöldum sjóðfélaga og ávöxtun þeirra, t.d. með því að lána sjóðfélögum peninga ýmist með veði í þeirra eigin eingum eða eingum foreldra, ættingja og vina. Lífeyrissjóðirnir lánuðu frekar út á veð en ekki greiðslugetu.

Flestir ef ekki allir sjóðfélagar lífeyrissjóðanna urðu fyrir áföllum vegna Hrunsins. Skuldir þeirra hækkuðu (m.a. skuldir við sjóðina), eignir þeirra töpuðu verðgildi sínu og greiðslugetan verð minni en áður.

Lífeyrissjóðirnir töpuðu háum upphæðum (iðgjöldum lífeyrisgreiðenda) á Hruni á röngum fjárfestingum. Það er þó ekki enn útséð með hvað stór það tap varð enda eru þeir í hópi kröfuhafa í bú fyrirtækja sem hugsanlega eiga eitthvað upp í skuldina. Lífeyrissjóðirnir voru (og eru enn) langstærstu fjárfestar landsins á sínum tíma og voru virkir í myndun þess bóluhagkerfis sem síðan sprakk í andlitið á almenningi. Ofan í kaupið neita stjórnendur sjóðanna svo að beita þeim til að létta vanda skuldugra sjóðfélaga.

Þeir vilja ekki koma að því að létta vanda þeirra sem eru með lánsveð.

Þeir vilja ekki taka þátt í að greiða vaxtabætur af húsnæðislánum sjóðfélaga.

Þeir vilja ekki koma að opinberum fjárfestingum nema gegn háum vöxtum og halda þannig uppi háu vaxtastigi í landinu.

Þeir berjast af hörku gegn hverskyns hugmyndum stjórnvalda um að sjóðirnir hjálpi til við að byggja landið upp eftir Hrun. Þeir hafa vakið upp væntingar hjá almenningi og stjórnvöldum um hugsanlega aðkomu sína að ýmsum málum en aldrei staðið við neitt nema þá að taka þátt í aflandskrónubissness með Seðlabankanum.

Þeir eru almennt hvorki til viðræðu um lausnir eða leiðir af nokkru tagi til að koma til móts við fólkið í landinu, fólkið sem greiðir iðgjöldin og á sjóðina.

Í raun eru lífeyrissjóðirnir verri en bankarnir þegar kemur að skuldavanda almennings Þeir virða hvorki skriflegt samkomulag um lausnir á þeim vanda né sýna vilja til slíkra verka.

Barátta þeirra gegn sínu eigin fólki náði síðan hámarki á dögunum þegar Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ hvatti þingið til þess að ákæra forsætisráðherra fyrir tilraunir ríkisstjórninnar til að fá sjóðina til liðs við almenning.

Það getur ekkert annað gerst en að nú fari að draga til tíðinda í samskiptu stjórnvalda og almennings annarsvegar og lífeyrissjóðanna hinsvegar.