Heift útgerðarmanna

Kafli I

Ég starfaði í sjávarútvegi í 33 ár. Á þeim tíma kynntist ég mörgum ágætum útgerðarmönnum. Sumir af gamla skólanum, markaðir af þeirri reynslu sem einkennir þá sem hafa upplifað hæðir og lagðir á löngum ferli. Aðrir voru ákafari, kvikkari í ákvörðunum og sífellt að leita leiða til að efla sig og þróa. Sumir voru allt að því nördar, hugsuðu ekki um annað en útgerð, tæplega viðræðuhæfir um annað og höfðu helgað greininni alla sinna og áttu ekkert eftir fyrir annað.

Í stórum dráttum voru þeir jafn misjafnir að upplagi og þeir eru margir, skreyttir öllum þeim kostum og göllum sem prýða góða menn.

Kafli II

Það er ekki langt síðan við áttuðum okkur á því að auðlindir sjávar eru ekki ótakmarkaðar eins og við héldum lengi. Aðgangur að takmörkuðum auðlindum er dýrmætur, bæði þeim sem fær að nýta sem og eiganda auðlindarinnar. Íslenskir útvegsmenn hafa í ártugi haft aðgang að fiskiðmiðunum án þess að greiða sérstaklega fyrir það. Aðgangurinn hefur verið takmarkaður við með heimildum sem hver og einn hefur fengið úthlutað. Útgerðin hefur þurft að laga sig að þeim takmörkunum sem stærð fiskistofna setur þeim og mátt hagræða verulega í rekstri sínum. Það hefur ekki verið sársaukalaust eða án átak í þjóðfélaginu eins og við vitum öll.

Kafli III

Tekjur sjávarútvegsins jukust mikið eftir Hrun í kjölfar falls krónunnar. Greinin sem var orðin mjög skuldsett náði vopnum sínum að nýju og hefur síðan verið að greiða niður skuldir sínar og búa í haginn fyrir framtíðina. Afkoma í greininni hefur stórbatnað og skilar eigendum sínum nú góðum arði. Fjárfestingar í sjávarútvegi eru miklar, ný skip bætast í flotann, fyrirtæki fjárfesta í nýjungum og viðaldi á skipum og búnaði sinnt af krafti.

Kafli IV

Eigendur margra útgerða tóku þátt í Hrunadansinum á sínum tíma. Sumir þeirra hafa misst sitt, aðrir minnkuðu við sig og enn aðrir eru í einhverskonar skuldameðferð hjá lánastofnunum. Þær útgerðir sem sinntu sjálfum sér vel standa best að vígi í dag. Þetta eru jafnt stór sem millistór fyrirtæki, fjárhagslega sterk og þau sem ráða yfir besta búnaðinum og bestu skipunum. Hinir sem tóku fjármuni úr sjávarútveginum í óskyldan rekstur, fóru flestir heldur illa.

Kafli V

Nú, þegar afkoma í sjávarútvegi er með besta móti og hagnaður í greininni mikill hafa verið sett lög í landinu sem gera það að verkum að hluti umframhagnaðar í greininni renni beint til þjóðarinnar, eiganda auðlindarinnar. Útgerðarmenn eru afa ósáttir við gjaldið og hafa eytt gríðarlegum fjármunum, tíma og fyrirhöfn til að koma í veg fyrir að þeir þurfi að sæta þessum lögum.

Kafli VI

Á nýafstöðnum aðalfundi LÍÚ var samþykkt áskorun til félagsmanna að setja verkbann á sjómenn til að mótmæla veiðigjaldinu en útgerðarmenn vilja að sjómenn greiði gjaldið fyrir þá. Þannig virðast útgerðarmenn nú vera tilbúnir til að gera atlögu að efnahagslegri uppbyggingu landsins í þeim tilgangi að skjóta sjálfum sér undan því að leggja sanngjarnan skerf af mörkum.

Kafli VII

Sjávarútvegurinn hefur lengi átt við ímyndarvanda að etja og átökin um yfirráð yfir auðlindum sjávar hafa sett djúp spor í þjóðarsálina. Aðalfundur LÍÚ bætti þar um betur. Offorsið, heiftin og hatrið sem einnkenndi málflutning útgerðarmanna á aðalfundinum er þeim og sjávarútveginum til skammar. Tilgangurinn er látinn helga meðalið, öllum brögðum beitt til verndar eigin hagsmunum og samfélagslegri ábyrgð vísað á dyr.

Kafli VIII

Úr því sem komið er aðeins um tvennt að ræða: Útgerðarmenn snúi við blaðinu eða leiðir skilja með þeim og stórum hluta þjóðarinnar. Sem stendur sýnist mér síðari leiðin líklegri þó ég voni heitt að sú fyrri verði farin.

Útgerðin ræður stefnunni.

Þeirra er valið.