Í þá gömlu góðu daga ...

Árið 2005 var Lánasjóður landbúnaðarins seldur til Landsbanka Íslands, sem þá hafði nýlega verið einkavinavæddur. Söluverðið var tæpir þrír milljarðar króna. Það „gleymdist“ hinsvegar að aflétta ríkisábyrgð á lánsjóðnum. Það leiddi til þess að þegar Landsbankinn fór á hliðina varð ríkisábyrgðin virk og við, þjóðin, tókum þessa þrjá milljarða á okkur eins og margt annað. Fjármálaráðherra á þessum tíma var Geir H Haarde og landbúnaðarráðherra Guðni Ágústsson frá Brúnastöðum. Frá þessu er m.a. sagt í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2009 sem síðar urðu að lögum (bls. 146). Það er einnig fjallað um þetta mál í skýrslu Ríkisendurskoðunar um ríkisreikning 2010 (bls. 24).

Það hefur hinsvegar farið hljóðar að söluvirðið mun ekki hafa skilað að fullu í ríkissjóð eins og það hefði þó átt að gera. Hluta þess mun hafa verið ráðstafað í reiðhallir og hesthús líkt og því sem sjá má hér að ofan. Hvort nafn hússins sé tilviljun eða tengt þeim sem lagði fé til byggingarinnar skal ósagt látið.

En það væri óneytanlega skemmtileg tilviljun ef svo væri.