Vel fallin til forystu

Oddný Harðardóttir er um margt sérstakur stjórnmálamaður. Fyrir utan að hafa óskað eftir þingsæti í kosningunum 2009 hefur hún mér vitanlega aldrei falast eftir frama eða forystu eins og svo margir aðrir. Þó hefur það gerst að henni hafa verið falin ýmis verkefni á undanförnum árum sem aðrir hafa sóst eftir. Þannig var henni treyst fyrir fjárlaganefnd þingsins á sínum tíma, fyrir forystu þingflokksins og að endingu var farið fram á það við hana að yrði fjármálaráðherra sem og hún gerði. Allt þetta leysti hún af hendi með miklum sóma og án átaka sem oftast á við um þá sem sækja fast frama í stjórnmálum.

Það er einkenni þeirra sem fara hægt yfir að komast alla leið á meðan við hin hrösum og missum sjónar á markmiðunum. Oddný hefur ekki sóst eftir forystuhlutverki í Samfylkingunni á landsvísu, ólíkt öðrum.

Það kæmi mér hinsvegar ekki á óvart að þannig færi það hinsvegar að lokum.

Enda er hún vel fallin til forystu eins og dæmin sýna.