Röng frétt - í öllum meginatriðum

RÚV sagði frá því í fréttum í gær að lítið hafi gerst hjá þinginu varðandi tillögur sem það sjálft samþykkti í kjölfar skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis og síðar þingmannanefndar. Fréttin er svo endurtekin í morgun og bætt við hana viðtali við fulltrúa stjórnarandstöðunnar. Þessi frétt er í öllum meginatriðum röng eins og þeir vita sem vilja.

Þingmannanefndin lagði til í ljósi niðurstaðna rannsóknarnefndar Alþingis að sett verði ákvæði í stjórnarskrá um hlutverk Alþingis (sjá bls. 5 og 6). Öll vitum við hvernig umræðan um nýja stjórnarskrá hefur gegnið fyrir sig á þinginu en loksins blasir þó við að greidd verði atkvæði um tillögur að nýrri stjórnarskrá, reyndar í andstöðu við stjórnarandstöðuna. Nefndin lagði einnig til eftirfarandi: 

1.         Þingmannanefndin telur rétt að alþingismenn setji sér siðareglur.              

Hefur ekki verið gert varðandi Alþingi. Andstaða við það á sumum þingflokkum. Þingið hefur þó sett sér ýmsar reglur t.d. um framlög til stjórnmálaflokka og upplýsingaskildu þeirra. Ríkisstjórnin hefur þegar sett sér siðareglur. 

2.         Þingmannanefndin telur að styrkja beri eftirlitshlutverk þingsins, rétt þingmanna til upplýsinga, aðgengi að faglegri ráðgjöf og stöðu stjórnarandstöðunnar á Alþingi sem gegnir þar mikilvægu aðhaldshlutverki.

Hefur verið gert m.a. með nýjum þingsköpum og er í áframhaldandi vinnu.

3.         Alþingi verði gefin árleg skýrsla um framkvæmd þingsályktana og mála sem Alþingi vísar til ríkisstjórnarinnar.

Hefur verið gert.

4.         Jafnframt leggur þingmannanefndin til að sett verði almenn lög um rannsóknarnefndir.

            Hefur verið gert

5.         Þingmannanefndin telur að endurskoða þurfi nefndaskipan og störf fastanefnda Alþingis með það að markmiði að gera þær skilvirkari. Nefndaskipan þingsins taki mið af þörfum þingsins en ekki skipulagi Stjórnarráðsins og reglur um opna nefndarfundi verði færðar í þingsköp.

            Hefur verið gert. 

6.         Þingmannanefndin telur að taka þurfi til endurskoðunar það verklag sem tíðkast hefur við framlagningu stjórnarfrumvarpa með það að markmiði að auka sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Í því samhengi leggur nefndin til að ríkisstjórn verði gert að leggja fram stjórnarfrumvörp með góðum fyrirvara þannig að þingmönnum gefist gott ráðrúm til að taka þau til faglegrar skoðunar, upplýstrar málefnalegrar umræðu og afgreiðslu.

            Hefur verið gert m.a. með nýjum lögum um þingsköp Alþingis.

 7.         Þingmannanefndin leggur sérstaka áherslu á að settar verði skýrar reglur um innleiðingu EES-gerða sem tryggi m.a. góð vinnubrögð og vandaðar þýðingar á EES-gerðum. Ástæða er til að skoða vandlega hvort Alþingi setji á fót sérstaka nefnd sem hefur það hlutverk að rýna allar EES-gerðir sem lagðar eru fyrir Alþingi til innleiðingar. Nýta þarf betur þær heimildir að lögum sem tiltækar eru til að aðlaga EES-gerðirnar að íslenskum veruleika, einkum með tilliti til smæðar landsins.

Hefur verið gert m.a. með nýju vinnulagi þingnefnda Alþingi við afgreiðslu EES reglna. 

8.         Þingmannanefndin leggur til að stofnuð verði sjálfstæð ríkisstofnun sem starfi á vegum Alþingis og hafi það hlutverk að meta og gefa út spár fyrir efnahagslífið á sama hátt og Þjóðhagsstofnun gerði til 1. júlí 2002. Þingmannanefndin leggur til að á vegum Alþingis fari fram endurskoðun á lögum um ráðherraábyrgð og landsdóm.

            Er ekki komið i framkvæmd.

9.         Þingmannanefndin gerir það að tillögu sinni að ákveðinni þingnefnd verði falið að hafa eftirlit með þeim úrbótum á löggjöf sem lagt er til í skýrslu þessari að verði hrundið í framkvæmd. Miðað skal við að úrbótum á löggjöf sé lokið fyrir þinglok árið 2012.

Hefur verið gert með nýjum þingsköpum m.a. með nýrri stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. 

10.       Þingmannanefndin vekur sérstaka athygli á að forseti Alþingis hefur nýlega kynnt frumvarp til breytingar á lögum um þingsköp Alþingis. Er í því frumvarpi m.a. gert ráð fyrir breytingum á nefndaskipan og eflingu eftirlitshlutverks Alþingis.

            Hefur verið gert – er orðið að lögum

11.       Þingmannanefndin leggur áherslu á að niðurstöður þingmannanefndarinnar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og skýrsla vinnuhóps um eftirlitshlutverk og starfshætti Alþingis frá haustinu 20094 verði lagðar til grundvallar við endurskoðun á lögum um þingsköp Alþingis.

            Hefur verið gert og er orðið að lögum.

Það má svo benda á að rannsókn á sparisjóðunum er langt komin en rannsóknarnfendin sjálf óskaði eftir lengri tíma þar sem verkið var umfangsmeira og flóknara en ráð var fyrir gert í upphafi. Auk þess má benda á að aldrei hafa verið afgreidd jafn mörg þingmannamála, m.a. frá stjórnarandstöðunni eins og á yfirstandandi kjörtímabili, sbr. Siv Friðleifsdóttir. Það stangast á við fullyrðingar um að foringjaræðið hafi aukist eins og sumir vilja halda fram

Á þessu sést vel að Alþingi hefur brugðist við niðurstöðum rannsóknar á Hruninu með ýmsum hætti þó auðvitað sé ekki öllu lokið.