Hnútarnir á Engeyjarsvipunni

Valdabaráttan í sjálfstæðisflokknum miðast að því að treysta stöðu formannsins og valdablokkarinna sem hann stendur fyrir og kennd hefur verið við Engey. Þannig vinnur hann jafnt og þétt að mynda manngerða skjaldborg í kringum sig, skipaða sínum æstustu aðdáendum og vinum. Það eru allt karlar. Konum er skipulega ýtt til hliðar og er greinilega ekki ætlað stórt hlutverk í flokknum hvort sem hann verður áfram utan stjórnar eða kemst einhverntímann í ríkisstjórn. Pólitísk niðurlæging Ragnheiðar Elínar á dögunum er ekki eina dæmið um það. Á síðasta þingi tók formaðurinn Þorgerði Katrínu úr fjárlaganefnd, sem er valdamesta nefnd þingsins og í hennar stað settur fulltrúi formannsins, Illugi Gunnarsson – nema hvað! Að Ólöfu Nordal undanskilinni er því enginn kona lengur í framvarðarsveit sjálfstæðisflokksins, hvorki á þingi né utan þings.

Það eru því greinilega enn einhverjir hnútar eftir á Engeyjarsvipunni sem þingkonur sjálfstæðisflokksins hrökklast undan þegar hún er reidd til höggs.