Illugi þingflokksformaður

Ég kynntist Illuga Gunnarssyni fyrst sem barni á Siglufirði eftir að ég hrökklaðist þangað til náms á sínum tíma. Ég passaði hann stundum fyrir foreldra hans sem tóku mig að nokkru leiti undir sinn verndarvæng á þessum árum og reyndust mér vel. Ég átti það til að svæfa Illuga stundum við munnhörpuleik og tel mig þannig hafa vakið upp tónlistarhæfileika sem blunduðu þá í brjósti hans en vöknuðu síðar til lífsins. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort mér hefði ekki verið nær að leggja minni áherslu á munnhörpuleikinn en ræða þess í stað meira við hann og lífið og tilveruna.

En Illugi er góður drengur. Hann hefur auðvitað skapað sér sína sögu í gegnum árin og þó stundum hafi hann skriplað á skötu (hver lendir nú ekki í því af og til) þá hefur hann náð vopnum sínum að nýju án mikilla átaka. Illugi er t.d. eini þingmaðurinn á Alþingi í dag sem er með uppáskrift frá lögmanni um að honum sé sætt á þingi. Ég er ekki viss um að það séu allir í færum til að verða sér út um þannig ávísun á eigið pólitískt heilbrigði. Það stafar því sannarlega miklum þingsóma af Illuga.

Illugi Gunnarsson verður án vafa fyrirmyndar þingflokksformaður.

Kannski með örlítið annan stíl en forveri hans, en það er líka allt í lagi.