Það hefur vonandi ekki farið framhjá neinum að Akureyri er 150 ára gömul í ár. Afmælishátíðin sem staðið hefur yfir meira og minna allt árið náði hámarki um helgina með margskonar viðburðum um allan bæ. Veðrið var eins og alltaf er á Akureyri, sól og sunnanátt. Afar góð þátttaka var í viðburðum helgarinnar, sérstakalega þó á tónleikunum í Gilinu í gær þar sem gríðarlegur fjöldi fólks kom saman til að hlusta á gamlar Akureyskar hljómsveitir. Þar fóru fremstir á sviði bræðurnir úr Hvanndal auk þess sem Baraflokkurinn flutti nokkur af sínum frábæru lögum, og þá ekki síður Villi naglbítur og svo fóru Skriðjöklarnir aljgörlega á kostum. Mér fannst þeir reyndar skemmtilegastir en hef aðeins áhyggjur af því hvort þeir hafi allir lifað tónleikana af miðað við framkomu þeirra á sviðinu sem var í meira lagi lífleg. Þeir litu alla vega sumir þannig út úr fjarlægð að vera lítið yngri en Akureyri.
Listigarðurinn á föstudagskvöldið var engu öðru líkur og Draugagangan skelfilega stóð fyllilega undir væntingum.
Dagskráin á Akureyrarvelli í gær var stórglæsileg og vakti mikla athygli. Held ég hafi ekki áður séð svo glæsilega sýningu hér á landi.
Afmælishátíðin hefur verið öllum aðstandendum hennar til mikils sóma.
Akureyri ber aldurinn vel og hefur held ég aldrei verið jafn lífleg og einmitt núna.