Tveir flokksráðsfundir hjá Vinstri grænum um helgina

Vinstrihreyfingin – grænt framboð hélt tvo flokksráðsfundi um helgina. Annar þeirra var haldin á Hólum í Hjaltadal.  Þann fund sat ég. Mæting var góð, meiri en búist var við og góður samhljómur hjá fundarmönnum. Allar ályktanir sem bornar voru upp á fundinum voru samþykktar með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða. Þar á meðal var ályktun um vilja flokksráðsins til áframhaldandi samstarfs vinstriflokkanna í landinu.

Ég veit ekki hvar hinn fundurinn var haldinn en af honum eru sagðar þær fréttir að þar hafi komið fram stigvaxandi óánægja með flokksmanna sem gæti jafnvel leitt til stjórnarslita. Engar slíkar ályktanir hafa enn birst frá þessum fundi mér vitanlega. Tilfrásagnar af þessum leynda fundi eru þeir helstir sem ekki voru fundinum á Hólum í Hjaltadal enda geta menn skiljanlega ekki verið á tveim stöðum í einu.

Enn hefur ekki verið talað við fundarmenn á flokksráðsfundinum sem ég sat á Hólum í Hjaltadal í fjölmiðlum.

Það hlýtur þó að koma að því fljótlega ef jafnvægi á að vera í frásögnum þeirra sem þar voru og þeirra sem þar voru ekki.