Útvarpsstöðin Bylgjan hefur lengi boðið hlustendum sínum upp einræður tveggja sjálfstæðismanna um verk ríkisstjórnarinnar og þjóðmálin almennt. Þetta er gert undir því yfirskyni að hér sé um virta hagfræðinga að ræða sem fjalli af fagmennsku og yfirvegun um þjóðmálin. Þetta eru auðvitað félagarnir og hagfræðingarnir Ólafur Arnarson og Ólafur Ísleifsson.
En hagfræðingarnir eru komnir í rökþrot. Þeir tala ekki lengur (ef þeir hafa þá einhverntímann gert það) um hagfræði. Þeir hafa berað sig sem ofsafengnir hægrimenn hverra hugmyndafræðilega heimur hrundi undan haustið 2008. Þeir eru mát. Eiga engin svör. Engin rök – engin málatilbúnaður – aðeins frussandi hatur og óbeit sem þeir einir geta sýnt af sér sem hafa orðið undir í rökræðunni. Eina sem frá þeim kemur er haturfullur áróður tveggja hægrimanna gegn stjórnvöldum og þá sér í lagi formanni Vinstri grænna.
Um þetta vitnar ótrúlegur málflutningur þeirra á Bylgjunni með þeim kumpánum í morgun sem gengur nú manna á milli á netinu. Það er svo þyngra en tárum taki að heyra flissið í þáttastjórnenda Bylgjunnar inn á milli haturfulls áróðurs hagfræðinganna. Hvað varð um gagnrýna fjölmiðlun á Bylgjunni? Féll hún líka fyrir björg?
Til upprifjunar finnst mér rétt að endurbirta pistil um þá félaga sem ég hafði áður birt.
Ólafur Ísleifsson sat á sínum tíma í stjórn Samtaka ungra sjálfstæðismanna á sama tíma og Geir H. Haarde og fleiri þekktir menn. Hann varð síðar efnahagsráðgjafi Þorsteins Pálssonar þáverandi forsætisráðherra og síðar stjórnarmaður hjá Alþjóðagjaldeyrisjóðnum. Hann þótti hinsvegar ekki standast þær væntingar sem til hans voru gerðar á þeim vettvangi og var skipt út fyrir Vilhjálm Egilsson, fyrrum þingmann sjálfstæðisflokksins.
Ólafur Ísleifsson sat einnig í svokallaðri Skuggastjórn Fréttablaðsins, þá undir stjórn Þorsteins Pálssonar, sem hafði það hlutverk að tala fyrir hagsmunum íslensku bankana. Skuggastjórnin komst m.a. að þeirri niðurstöðu á þessum tíma að hætta væri á ofkólnun í íslensku efnahagslífi og í maí 2008 lýsti nefndur Ólafur að það versta væri yfirstaðið í efnahagsvandræðum Íslands. Fimm mánuðum síðar hrundi allt íslenska fjármálakerfið.
Ólafur sat m.a. í nefnd viðskiptamanna og hagfræðinga sem útnefndu Icesave-reikninga Landsbankans sem bestu viðskiptahugmynd ársins 2007. Hann flutti einnig bráðskemmtilegt erindi undir lok árs 2006 þar sem segir m.a. að „fjármálageirinn stuðli áfram að hagsæld og velmegun á komandi árum” eins og það hljómaði. Lokaniðurstaða hans er sú að ekki sé ástæða “til að ætla annað en fjármálaþjónusta haldi áfram að vaxa á komandi árum.”
Ólafur Arnarson var á sínum tíma framkvæmdarstjóri þingflokks sjálfstæðisflokksins og síðar aðstoðarmaður (aðstoðarráðherra eins og hann mun hafa kallað sjálfan sig!) Ólafs G Einarssonar ráðherra flokksins og gegndi ýmsum öðrum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn sinn. Hann var seinna framkvæmdastjóri hjá hinum geðþekku Lehman Brothers í London, stýrði þar eignastýringu og varð eftir það forstöðumaður Viðskiptaþróunar hjá SPRON. Ólafur hefur sömuleiðis unnið að alþjóðlegum eingastýringar fyrirtækjum og árið 2008 vann hann svo að viðskiptaþróun hjá Landic Property sem var í eigu Baugsmanna en er nú komið í þrot. Sjálfur tapaði Ólafur svo máli fyrir Hæstarétti vegna beiðni um að leita nauðasamninga, m.a. vegna þess að hafa „stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar“ – eins og segir í dóminum.