Fluguboxið mitt er tiltölulega einfald að umfangi. Með tíð og tíma hefur þeim fækkað verulega flugunum sem fara á línuendann hjá mér og er nú svo komið að ég kasta bara nánast bara einni flugu fyrir laxinn heilu sumrin. Rauðri Frances með keiluhaus, af ýmsum stærðum reyndar og helst frá Dr. Jónasi. Ég tók alla mína fiska á rauða Frances í fyrra sumar, að einum undanskildum sem féll fyrir 1/2" svarti Frances – með keiluhaus. Í urriðanum nota ég hinsvegar eingöngu litlar púpur eða þurrflugur. En það er önnur saga.
Rauð Frances er eins og ESB umræðan á Íslandi. Hún kveikir alltaf líf þar sem henni er beitt, ef á annað borð er lífsvon. Ég nota stundum léttari Frances (án keiluhauss) til að kanna svæði, athuga hvort fiskur geri vart við sig áður en keiluhausinn fer undir. Það virkar líka. Ég nota Frances ekki síður í bleikjunni. Ég hef tekið væna glitrandi og nýgengna fiska á örtúpu með keiluhaus og smár glærar bleikjur á 1“ stóra eldrauða Frances. Jafnvel afætur sem halda sig vera stóra fiska eiga það til að falla á rauðri Frances af öllum stærðum. Rauð Frances nær einnig stundum að kveikja líf í gömlum dökkum og legnum fiskum sem höfðu jafnvel ekki fyrir því að ganga til sjávar sl. vetur til að endurnýja forðann og safna kröftum. Það er sagt að maður eigi að lina þjáningar slíkra fiska, sem eiga sér oft ekki lífsvon en ég hef aldrei gert það, ekki haft brjóst í mér til þess, bara sleppt þeim í þeirri von að þeir nái áttum. Skemmtilegast er þó þegar stórir, þéttir og djúpvitrir, kjálkastórir, eldri en tvævetur og lífsreyndir höfðingjar láta sig hafa það að stökkva á Francesinn. Það eru tökur sem koma alltaf jafn mikið á óvart. Maður reiknar einhvernveginn aldrei með því að slíkir boltar láti blekkjast þó agnið sé freistandi. Þetta eru fiskarnir sem eru myndaðir í bak og fyrir og lenda oftar en ekki á forsíðum veiðiblaðanna til vitnis um vel heppnaða veiðiferð. Það er stundum eins og þeir njóti sviðsljóssins, nánast hægt að greina glottið enda vita þeir sem er að þeim verður sleppt í þeirri von að hægt sé að setja í þá aftur síðar um sumarið eða það næsta. Sumir eru reyndar settir í klak enda skila slíkir fiskar oft góðu séu þeir rétt kreistir.
Í sumar hringdi einn félaga minn í mig þar sem hann stóð úti í miðri á. Ekkert að gerast og enginn fiskur kominn þann daginn. Ég hvatti hann til að setja rauða Frances undir. Klukkutíma síðar sendi hann mér skilaboð um að hann hefði landað einum á rauða Frances – með keiluhaus!
Ég veit að það er meira sport í því að skipta um flugur og fá hann til að taka á eitthvað óvænt. En ég nenni því ekki.
Rauð Frances með keiluhaus er málið.