Það er oft ekki annað hægt en dást að viðhorfi Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar til lífsins og tilverunnar. Mitt í fullkomnu gjaldþroti þeirra pólitísku hugmyndafræða sem hann hefur talað fyrir áratugum saman, beitir hann sér fyrir sérstöku frjálshyggjuátaki í Háskóla Íslands og virðist ætla að komast upp með það. Hverjum öðrum hefði dottið þetta í hug? Grein Hannesar Hólmsteins um mannaráðningar við Hörpuna hefur sömuleiðis hlotið verðskuldaða mikla athygli en þar krefst hann skýringa á því hversvegna „… Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, leikaradóttir, lögfræðingur og fyrrverandi útvarpskona, alþingismaður og menntamálaráðherra, var ekki valin úr hópi umsækjenda til að veita menningarhúsinu Hörpu forstöðu.“
Já, af hverju er það ekki skýrt frekar hversvegna fyrrverandi formaður sjálfstæðisflokksins fær ekki það sem flokkurinn vill að hún fái? Flokkurinn er vanur að ná sínu fram hvað sem tautar og raular. Um það bera ótal skipanir í embætti í gegnum tíðina vitni um. Hver man ekki eftir þessu hér – sem endaði svona? Fleiri dæmi má auðvitað nefna í þessu samhengi en svo sem ekki mikil þörf á því. Niðurstaðan var alltaf sú Flokkurinn náði sínu fram þó það hafi kostað smá fórnir.
Hannes Hólmsteinn Gissurarson er ekki undanskilin í þessu samhengi eins og allir vita. Fáir umsækjendur um stöðu við Háskóla Íslands hafa fengið eins marga og vel rökstudda dóma um vanhæfi og Hannes Hólmsteinn í gegnum tíðina eins og má m.a. sjá má hérna svo dæmi sé tekið. Það hefur hinsvegar engu breytt. Flokkurinn hefur séð um málið þegar fagleg rök þrjóta.
Það er því fullkomlega skiljanlegt að Hannes Hólmsteinn krefjist svara við því hversvegna fyrrverandi varaformaður Flokksins, fyrrverandi menntamálaráðherra og núverandi þingmaður Flokksins fái ekki það sem Flokkurinn vill að hún fái. Það væri algjört stílbrot á linnulausri áratuga skipan sjálfstæðismanna í stöður og embætti þvert á faglega ráðgjöf, ef Flokkurinn nær ekki sínu fram.
En það er ekki öll nótt úti enn. Um það vitnar sorgleg saga spilltrar íslenskrar stjórnsýslu.