Lagt var af stað með byggingu tónlistarhússins Hörpu á veikum grunni. Peningarnir sem átti að nota til framkvæmdanna reyndust þegar til kom vera froðupeningar góðærisins sem hvergi voru teknir gildir. Þegar svo allt hrundi í hausinn á okkur haustið 2008 stóðum við frami fyrir því að hætta við allt saman og borga af skuldum hálfbyggð tónlistarhúss eða ganga til verks og klára byggingu nýs tónlistarhúss sem standa myndi til langrar framtíðar. Síðari kosturinn var sem betur fer fyrir valinu með samkomulagi á milli Reykjavíkurborgar og ríkisins. Kostnaður við húsið nam á endanum um 28 milljörðum króna. Það er nánast sama og brúttóverðmæti loðnuvertíðarinnar sl. vetur sem var ein besta loðnuvertíð til marga ára.
Það lá alltaf ljóst fyrir að tap yrði á rekstrinum, a.m.k. fyrstu árin. Það var óhjákvæmileg afleiðing upphafsins og gríðarlegrar skuldsetningar.
Ég er ósammála þeim sem láta sem svo að rétt hefði verið að hætta við byggingu Hörpunnar í kjölfar Hrunsins. Það var rétt ákvörðun að klára verkið. Það var rétt ákvörðun efnahagslega séð og það var rétt ákvörðun fyrir tónlistina og menninguna í landinu og þar af leiðandi fyrir okkur öll.
Saga Hörpunnar mun því miður alltaf verða samofin sögu ruglsins sem átti sér stað á árunum fyrir Hrun og hófst með einkavinavæðingu bankanna. Þá sögu þekkjum við og eigum að gera upp með öðrum hætti en að sverta tónlistarhúsið Hörpu.
Harpan er komin til að vera.