Leiðindi, leiðindi, leiðindi ...

Góðar fréttir eiga erfitt uppdráttar á Íslandi. Okkur virðist tamara að líta inn í myrkrið og sækja næringu í leiðindi. Á undanförnum vikum hefur verið af nógu að moða af jákvæðum fréttum fyrir þá sem þeirra vilja njóta. Dæmi um það er minna atvinnuleysi en gert var ráð fyrir, verðbólgan á hraðari undanhaldi en búist var við, álganing skatta bendir til þess að hagur heimila sé að byrja vænkast aftur og ýmsar aðgerðir stjórnvalda til að dreifa byrgðum Hrunsins áhafi tekist auk þess sem flestir hagvísar sýna fram á betri stöðu og almennt aukin umsvif víðast hvar í samfélaginu. Margar stórar framkvæmdir eru við það að hefjast sem skapa munu mörg störf og auka tekjur. Atvinnulífið er að taka hressilega við sér, sjávarútvegurinn gengur betur en nokkru sinni áður, ferðamannaiðnaðurinn ekki síður auk þess sem bjartara er framundan hjá öðrum iðngreinum m.a. vegna þeirra framkvæmda sem framundan eru, t.d. við vegagerð og byggingar. Ríkisreikningur sýnir að stjórnvöld eru á réttri leið við að snúa nærri gjaldþrota ríkissjóði í sjálfbæran rekstur og endurgreiðsla á lánum sem tekin voru vegna Hrunsins er hafin. Orðspor Íslands á alþjóðavettvangi er að batna ef fullkominn trúnaðarbrest á þeim vettvagni.

Heilt yfir er ástandið ágætt miðað við þau ósköp sem á okkur dundu haustið 2008.

En því miður virðist það vera mörgum ofviða að njóta þess sem vel gengur. Þá er gripið til þess að búa til leiðindi og þá helst úr engu sem hönd er á festandi. Markmiðið að telja fólki trú um að þrátt fyrir allt hljóti örugglega að vera maðkur í mysunni – einhversstaðar. Og ef ekki þá sé rétt að koma honum þar fyrir.

Því miður eru þeir enn fjölmargir sem hafa tileinkað sér viðhorf þeirra sem eftir langa, stranga og dimma göngu er loksins komin út í gangamunann en kjósa frekar að stara áfram inn í myrkrið í stað þess að njóta birtunnar.

Hér fyrir norðan skín sólin hinsvegar jafnt á alla og ég sá ekki betur en gestir Lystigarðsins á Akureyri nytu hennar til botns á hundrað ára afmæli garðsins í gær. Það er engin leið að búa til leiðindi úr því, sama hvað reynt verður.