Strákarnir sem gegna formennsku í stjórnarandstöðunaflokkunum hafa enn einu sinni opinberað fávisku sína um fjármál ríkisins. Nú er það ríkisreikningur síðasta árs sem er þeim ofviða ef marka má viðbrögð þeirra í fjölmiðlum.
Staðreyndirnar eru hinsvegar þessar: Efnahagsáætlun stjórnvalda, sem gerð var í samstarfi við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn og þær þjóðir sem lánuðu okkur peninga í kjölfar Hrunsins, hefur gengið eftir. Að öðrum kosti hefði samstarfi Íslands við þessa aðila að þessu leiti ekki lokið á síðasta ári. Þess vegna höfum við nú tekið til við að endurgreiða lán og þess vegna er viðsnúningur í efnahags- og atvinnulífi hafinn. Rekstur ríkissjóðs gekk samkvæmt áætlun á síðasta ári, þ.e. reksturinn (gjöld og tekjur) voru í takt við fjárlög þess árs. Þetta er það sem ríkisreikningur síðasta árs sýnir svo ekki verður um deilt.
Eftir stendur að enn erum við að fá skelli á okkur vegna Hrunsins og málum því tengdu. Dæmi um það eru gífurlegur kostnaður vegna spillingar og óráðssíu Sparisjóðs Keflavíkur sem færður var til bókar í reikningi síðasta ár.
Um það mál myndi ég ekki tala væri ég í sporum strákanna í stjórnarandstöðunni.
Ég myndi hinsvegar í þeirra sporum gefa mér smá tíma til að skilja þau grunnhugtök sem nauðsynlegt er að kunna ef þeir á annað borð vilja vera marktækir um þessi mál.
Hér kemur smávegis í þá áttina sem þeir gætu byrjað á:
Fjárlög: Lög sem Alþingi samþykkir um tekjur og gjöld hvers árs.
Ríkisreikningur: Reikningur hvers árs (segir til um hvernig gengið hefur að halda fjárlög).
Frumtekjur: Tekjur án vaxtatekna
Frumgjöld: Gjöld án vaxtagjalda
Frumjöfnuður: Jöfnuður í ríkisrekstrinum án vaxtatekna og vaxtagjalda
Heildarjöfnuður: Jöfnuður á milli allra tekna og allra gjalda.
Óreglulegar tekjur: Einskiptistekjur koma til einu sinni en ekki aftur.
Óregluleg útgjöld: Einskiptisútgjöld sem koma til einu sinni en ekki aftur (t.d. gjaldþrot Seðlabankans og SpKef).