5,2 milljarðar afskrifaðir hjá Morgunblaðinu!

Ársuppgjör Morgunblaðsins  vegna ársins 2011 hefur verið birt. Þar kemur fram að Íslandsbanki afskrifaði tæpan milljarð (944 milljónir) af skuldum eigenda blaðsins á síðasta ári. Áður hafði bankinn afskrifað 4,3 milljarða af skuldum blaðsins (2009) og selt það til nýrra eigenda. Stærstu eigendur blaðsins eru íslenskir útvegsmenn sem ráða yfir um þriðjungi aflaheimilda við Ísland.

Samkvæmt þessu hefur Íslandsbanki afskrifað 5,2 milljarða af skuldum Morgunblaðsins frá árinu 2009 og rekstur þess verið í molum árum saman.

Það dugar þó hvergi nærri til því eins og fram kemur í reikningum síðasta árs er tap á rekstri blaðsins upp á ríflega 200 milljónir á því ári.

Íslandsbanki hefur því tekið annan snúning á fjárhagslegri endurskipulagningu Morgunblaðsins með fyrrgreindum afskriftum auk þess sem eigendur blaðsins leggja félaginu til aukið hlutafé upp á 1,2 milljarða króna.

Íslandsbanka virðist mjög í mun að Morgunblaðið komi út á hverjum degi og það verði í eigu íslenskra útgerðarmanna sem leggja því til aukið fé á hverju ári. Önnur skýring er tæplega til á því hversvegna bankinn tekur blaðið reglulega í skuldameðferð og afskrifar milljarða á milljarða ofan af skuldum þess. Fá önnur fyrirtæki samsvarandi fyrirgreiðslu hjá Íslandsbanka?

Eins og allir vita er Morgunblaðinu ritstýrt af pólitískum vitfirringi sem gerði Seðlabanka þjóðarinnar gjaldþrota einan seðlabanka vestrænna þjóða auk þess að leiða þjóðina fram af þeirri efnahagslegu bjargbrún sem hún að lokum féll fram af. Bankinn virðist því ekki gerar neinar kröfur til stjórnenda fyrirtækisins, hver viðskiptasaga þeirra er og hvort þeir séu líklegir til að skila árangri.

Þess í stað er afskrifað að því er virðist endalaust til þess eins að bjarga eigendum þess frá fjárhagslegu tjóni og tryggja útgáfu blaðsins hvað sem tautar og raular.

Hvað veldur þessu? Hversvegna er Íslandsbanka svona viljugur að fjármagna útgáfu Morgunblaðsins?