bvg.is kynnir sér forsetaframbjóðendur

Stundum fær maður viðbrögð við einhverju sem maður segir eða gerir sem koma manni algjörlega í opna skjöldu. Stundum geri ég líka eitthvað eða segi sem á skilið hörð viðbrögð eins og nýleg dæmi sanna. En þannig er það nú bara með okkur sem tilheyrum hinum breyska jaðarhópi landsmanna.

Í gær skrifaði ég örlítinn pistill um einn forsetaframbjóðandann sem ég er líklegur til að kjósa en gerði athugasemdir við kosningabaráttuna. Málsmetandi maður hafði samband við mig all þungur í huga út af þessum ósköpum og vildi fá að vita út af hverju ég væri að hnýta í frambjóðandann með þessum hætti. Mér væri nær að kynna mér hvað hún hefði fram að færa heldur en að vera með svona stæla. Mér varð um og ó enda fannst mér ég skrifa heldur hlýlega til Þóru Arnórsdóttur en hitt þó ég hafi fundið að kosningabaráttu hennar.

En hvað um það. Ég tók manninn alvarlega og kynnti mér fyrir hvað Þóra og aðrir frambjóðendur standa miðað við það hvað finna má á netinu.

Ég byrjaði á Hannesi en fann enga heimasíðu tileinkaða framboði hans (er reyndar ekki mjög góður í að leita á netinu). Varð því að byggja að mestu leiti á öðrum upplýsingum, m.a. þessu hér.

Það er nánast öruggt að ég kýs ekki Hannes.

Þar næst var komið að Andreu Ólafsdóttur sem heldur úti ágætri heimasíðu þar sem hún greinir segir frá sjálfri sér og fyrir hvað hún stendur.

Ég er ólíklegur til að kjósa Andreu.

Þar næst var komið að Herdísi Þorgeirsdóttur en hún segir ágætlega frá sjálfri sér og stefnumálum sínum á heimasíðu framboðsins. Herdís hefur komið fram af mikilli röggsemi og tala skýrt um framboð sitt og framtíðarsýn. Svo sá ég að Ólína Þorvarðardóttir er talin vera líklegur stuðningsmaður Herdísar sem lyftir henni heldur upp að mínu mati enda er Ólína ekki þekkt fyrir að leggja heybrókum lið sitt.

Ég er ekki viss um að ég muni kjósa Herdísi.

Ari Trausti Guðmundsson er með ágæta heimasíðu þar sem finna má margt um hann og hans hug til forsetaembættisins. Ég finn í kringum mig að æ fleiri segjast geta hugsað sér að styðja Ara Trausta vegna kosta sem hann er sagður búa yfir og myndu nýtast vel í embætti forseta lýðveldisins.

Ég hugsa hlýlega til Ara Trausta í þessu sambandi.

Ólafur Ragnar Grímsson hefur það umfram aðra frambjóðendur að við vitum öll fyrir hvað hann stendur. Hann þarf ekki að segja okkur neitt um það sjálfur. Þess vegna las ég aftur yfir forsetakafla rannsóknarskýrslu Alþingis (bls. 170-178) til að rifja upp það sem allt of margir virðast búnir að gleyma.

Það eru meiri líkur á þróðuðu lífi á Mars en að ég muni kjósa Ólaf Ragnar.

Þá var komið að Þóru Arnórsdóttur en framboð hennar heldur úti góðri heimasíðu sem umfram annað er virk og uppfærð reglulega auk þess að hafa glaðlegt og jákvætt yfirbragð. Þóra er sá frambjóðandi sem finna má hvað mestar upplýsingar um á netinu (að ÓRG undanskildum) og auðveldast er að kynna sér. Hún er sú sem mestar vonir eru bundnar við að hefja embættið aftur til vegs og virðingar eftir allt langt niðurlægingartímabil. Hún er sú sem stuðningsmenn sitjandi forseta óttast mest. Það kemur best fram í því hvernig þeir ráðast á maka hennar frekar en hana sjálfa og er skýrt merki um taugaveiklun og  ráðaleysi andstæðinga hennar.

Ég er líklegur til að kjósa Þóru eins og áður hefur komið fram.

En svo er enn nógu langt til kosninga til að maður gæti gert allt annað á kjördag en í dag.

Ef maður man þá eftir því að kjósa.