Rassskellingar og typpahlaup

Nei, fyrirsögnin er ekki tekin úr refsingarhandbók sjálfstæðisflokksins. Heldur datt mér þetta í hug við lestur á tilskrifum Ómars Ragnarssonar um vægast sagt undarlega undarlega hegðun íþróttamanna. Í því tilfelli sem Ómar segir frá er um að ræða viðurkenndar rassskellingar á nýliðum í handboltalandsliði þjóðarinnar. Samkvæmt þessu er enginn viðurkenndur sem einn af „strákunum okkar“ nema að hafa hlotið duglega rassskellingu frá félögum sínum, jafnvel svo að viðkomandi er hvorki stætt né sætt í kjölfarið.

Þetta er auðvitað stórfurðulegt en samt sem áður eitthvað sem virðist hafa verið stundað og viðurkennt í íþróttum um langan tíma.

Í lokaverkefni til B.Ed.-prófs í íþrótta- og heilsufræði sem Viktor Már Jónasson skrifaði í fyrra er m.a. fjallað um slík mál en Viktor Már var/er leikmaður Dalvík/Reynir. Í verkefni sínu segir Viktor Már m.a. (bls. 4):

„Þar sem höfundur er leikmaður hjá D/R (Dalvík/Reynir) hefur hann kynnst nokkrum reglum og siðum sem hafa mislengi verið til. Typpahlauper orðinn árlegur viðburður og það felst í því að leikmenn hlaupa naktir á undan liðsrútunni ákveðna vegalengd. Typpahlaupið er ekki gefandi er óhætt að segja en atburðurinn tengir samt liðsfélaga betur saman og af þessum atburð er alltaf hægt að hlæja og hafa gaman af. Annar siður sem hefur fest sig í sessi er rassskelling. Þegar að leikmaður hefur skorað sitt fyrsta mark fyrir félagið er hann “verðlaunaður” sem felst í því að liðsfélagarnir fá allir að rassskella hann einu sinni hver í sturtunni eftir leik. Þetta er annað afbrigði sem telst ekki vera gefandi, en á furðulegan hátt, þjappar liðinu saman. Einnig er það óskráð regla að þrír yngstu leikmennirnir skulu ávallt hafa vatn, bolta, vesti og keilur klárt fyrir hverja æfingu og hvern leik. Það sem sameinar hinsvegar hópinn af stærstum hluta er það að allir hafa það að markmiði að spila knattspyrnu og vilja vinna alla leiki.“

Sem sagt rassskellingar og typpatog er stundaðar til að þjappa liðinu saman. Þannig öðlast allir sömu reynsluna, eiga sameiginlegt leyndarmál, hafa bæði rassskellt og verið rassskelltir auk þess að spreyta sig í typpahlaupi.

Fyrir nokkru hlupu nokkrir ungir Akureyringar naktir um götu bæjarins. Sagt var að þar hafi verið á ferð 2. flokkur ÍBA í handbolta að fangað ný fegnum Íslandsmeistaratitli. Sannarlega óvenjuleg aðferð, kannski hluti af íþróttauppeldinu, einhverskonar vígsla, jafnvel í ætt við typpahlaupið og hver veit nema þeir hafi svo endað saman í sturtunni og rassskellt hvern annan duglega.

Hvað sem því líður þá var þarft hjá Ómari Rangarssyni að vekja máls á þessum undarlegu siðum í heimi íþróttanna sem hvíslað hefur verið um en fáir viljað ræða um opinberlega.