Oddskarðsgöng sem eru 640 metra löng, voru opnuð árið 1977, fyrir 35 árum. Þau hafa án efa þótt góð samgöngubót á sínum tíma. Oddskarðsgöng eru hinsvegar barn síns tíma og það er skammarlegt að ekki hafi verið ráðist í vegabætur í þeirra stað fyrir lifandi löngu. Það hefði verið upplagt að leggja af stað í þá vegferð á þeim tímum sem nóg átti að vera til af fjármunum til slíkra framkvæmda. En við vitum hvernig það fór. Ríkissjóður var tæmdur og þjóðin kafkeyrð í skuldir langt fram í tímann.
Það breytir hinsvegar engu um þörf fyrir bættar samgöngur, m.a. í stað Oddskarðsganga. Því fær ekkert breytt.
Nú skilst mér að forseti bæjarstjórnar í Fjarðabyggðar hafi hótað því að það muni „rigna eldi og brennisteini“ ef stjórnvöld ráðast ekki undanbragðalaust í gerð nýrra jarðanga þar eystra.
Þaenebbleaþa!
Hverjum á þá elda að kveika? Yfir hverja á að demba brennisteini? Er forseti bæjarstjórnar Fjarðarbyggðar að hóta mér eldi og brennisteini? Hvað felst í því? Hef ég ástæðu til að óttast og þá um hvað? Er fjölskyldan í hættu? Á ég að láta lögguna vita? Á ég að biðja um vernd? Er forseti bæjarstjórnar Fjarðarbyggðar að hóta Kristjáni Þór Júlíussyni forvera mínum í embætti varaformanns fjárlaganefndar og nágranna hér á Akureyri? Þurfum við félagarnir að hafa gætur á okkur? Vera á varðbergi. Varast að vera einir á ferli. Vill forseti bæjarstjórnar láta brennisteini rigna yfir Tryggva Þór Herbertsson fyrir þátt hans í Hruninu eða er hann að hóta Steingrími J eldi fyrir að hafa ekki tekist að aflétta því sama Hruni af þjóðinni?
Í alvöru talað – hverskonar rugl umræða er þetta?
Ég er alin upp við slæmar samgöngur. Ég þekki vel þau lífsgæði sem góðar samgöngur eru. Þess vegna styð ég heilum huga bættar samgöngur, hvar sem er – líka fyrir austan . Ég tel reyndar að jarðgöng þar eigi að verða næsta stóra verkefni sem ráðist verður í fyrir opinbert fé.
En plís Jón Björn – ekki þessi bjánalæti.