Málþófið tapaðist

Málþóf er það kallað þegar þingmenn reyna að hindra framgang mála á þingi. Það eru til ýmsar útgáfur af málþófi. Ein útgáfan er að draga umræður um það mál sem þingmenn vilja koma í veg fyrir að nái fram á langinn með ræðuhöldum þangað til að flytjendur þess gefast upp á umræðunum og draga málið til baka eða gera á því breytingar til að þóknast málþófsmönnum. Önnur leið er að tala endalaust um óskylt mál í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að mál sem á að reyna að stöðva komist á dagskrá.

Það er síðari útgáfa málþófsins sem hefur verið beitt á Alþingi síðustu daga. Þar hafa þingmenn stjórnarandstöðunnar talað sig máttlausa gegn því að fækka ráðuneytum og ráðherrum í ríkisstjórn. Hljómar einkennilega og er ekkert sérstaklega góður málstaður að verja. En svona er þetta samt. Tilgangurinn var að ná tökum á öðrum málum ríkisstjórnarinnar s.s. stjórn fiskveiða, rammaáætlun og nýrri stjórnarskrá. Það mistókst að þessu sinni hjá andstöðunni sem sat uppi með það í gær að vera í málþófi um rangt mál sem hvergi nýtur samúðar og að auki á röngum tíma. Það hafa því líklega fáir verið jafn fegnir og þingmenn stjórnarandstöðunnar í gær þegar þeim bauðst að hætta málþófi sínu. Nema kannski sá hluti þjóðarinnar sem enn fylgist með þingstörfunum.

Í gær tókst því með nokkru harðfylgi að koma skikk á störf þingsins a.m.k. út næstu viku sem vonandi verður til að betri mynd dregst upp af Alþingi en blasað hefur verið að undanförnu.

Málþófið varð undir - sem betur fer.