Daði Már Kristófersson og Stefán Gunnlaugsson hafa nú skilað atvinnuveganefnd þingsins skýrslu um áhrif frumvarpa um stjórn fiskveiða og veiðigjöld. Í skýrslunni fara þeir yfir stöðu 23 stærstu sjávarútvegsfyrirtækja landsins og 12 fyrirtækja í krókaflamarkskerfinu. Niðurstöðurnar eru sláandi.
Samkvæmt niðurstöðu þeirra mun fimmtungur af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins aldrei geta staðið undir skuldum sínum og litlu færri eru í erfiðri stöðu af sömu sökum (bls. 37). Þetta þýðir að um 40% af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins eru annaðhvort svo illa leikin að þau eiga sér ekki viðreisnar von eða þá að staða þeirra er mjög erfið í því sambandi.
Staða hjá krókaaflamarksfyrirtækjum er enn verri. Af þeim tólf sem er sérstaklega farið yfir í skýrslunni er ríflega helmingur þeirra svo illa stödd að þau munu aldrei geta greitt skuldir sínar, að mati skýrslu höfunda og tvö eru í mjög erfiðri stöðu (bls. 40). M.ö.o. þá eru 3/4 fyrirtækja í krókaflamarkskerfinu annaðhvort ófær um að standa við skuldbindingar sínar eða í vondri stöðu ef marka má skýrsluna.
Þetta er hrikaleg staða svo vægt sé til orða tekið og vekur upp margar spurningar um hvernig svo er komið fyrir íslenskum sjávarútvegi ef rétt er.
Við því verða að fást einhver gild svör.
Myndin hér að ofan er úr auglýsingarherferð gegn breytingum á lögum um stjórn fiskveiða frá árinu 2010 en staða sjávarútvegsfyrirtækjanna í skýrslu þeira Daða og Stefáns er út frá stöðu þeirra það ár.