Viðbrögð sjálfstæðismanna við sakfellingu Geirs H Haarde fyrrum formanns flokksins fyrir landsdómi eru furðuleg. Fyrst var reynt að halda því fram að landsdómur væri pólitískur dómstóll fyrst hann sakfelldi formanninn fyrrverandi. Síðan var því bætt við að þetta væri allt formanni Vinstri grænna að kenna. Þar á eftir var reynt að halda því fram að sakfellingin væri í raun sýknudómur, hvernig sem það getur nú gerst. Síðan hefur því verið haldið fram dómurinn væri í raun sektardómur yfir stjórnsýslunni og formaður sjálfstæðisflokksins hafi bara verið svo óheppin að vera á staðnum þegar á það reyndi fyrir dómi. Heilt yfir hafa viðbrögð Geirs og sjálfstæðismanna verið vægast sagt ruglingsleg og ómarkviss.
Svo hefur verið ýjað að því Geir H Haarde hafi einhvernvegin bara lent í þessu, nánast óvart og ekki sé hægt að kenna honum um hvernig stjórnsýslan hafi verið orðin. Hann hafi bara tekið við því sem að honum var rétt í þeim efnum af forverum sínum. Dómurinn sé því fyrst og fremst dómur yfir stjórnsýslunni en ekki Geir eins og áður segir.
Skoðum þetta síðast talda aðeins betur.
Þegar ríkisstjórn Geirs H Haarde hrökklaðist frá eftir áramót 2009 var Geir eini þingmaður sjálfstæðisflokksins sem þá sat á þingi og hafði áður verið í stjórnarandstöðu. Hann hafði þá setið á þingi frá árinu 1987 eða í heil 23 ár, þar af í 18 ár í meirihluta. Áður en hann settist á þing var hann formaður ungra sjálfstæðismann og aðstoðarmaður fjármálaráðherra. Geir var ráðherra samfelld frá árinu 1998 þar til hann hrökklaðist frá völdum tæpum ellefu árum síðar. Hann var lengst af fjármálaráðherra, síðan utanríkisráðherra í stuttan tíma og tvö og hálft ár sem forsætisráðherra sem hann og var þegar hann hrökklaðist frá með ríkisstjórn sína í ársbyrjun 2009.
Geir H Haarde lenti því ekki óvart í neinu. Hann tók ekki við keflinu úr hendi annarra án þess að vita í hvaða átt hann átti að stefna. Geir H Haarde var ekki bara nytsamur sakleysingi eins og gefið hefur verið í skyn sem var látin taka sök sem aðrir hefðu átt að taka á sig. Hann var þarna allan tímann. Geir er einn af aðalhöfundum þess fjármálakerfis sem hrundi í hausinn á okkur haustið 2008. Hann er einn af helstu hönnuðum þeirrar spilltu stjórnsýslu sem getið er um í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Dómur yfir stjórnsýslunni er því um leið dómur yfir Geir og pólitískum samferðamönnum hans hvað það varðar. Það er því fullkomlega rökrétt í ljósi sögunnar að hann, helst af öllum sem voru á hinu pólitíska sviði haustið 2008, þyrfti að svara fyrir gerðir sínar fyrir landsdómi og bera þá sök sem hann var sakfelldur fyrir.
Geir er án vafa hinn vænsti maður sem engum vill illt. Ég ætla honum ekkert annað. Það á líka við um marga fleiri sem hefur orðið hált á lífsbrautinni og þurft að svara fyrri það. En pólitísk þátttaka Geirs H Haarde og það stórfellda gáleysi sem hann sýndi af sér við stjórn landsins er óumdeild og sömuleiðis hans pólitíska ábyrgð. Rétt eins og niðurstaða Landsdóms sannar.