Frjálst fall Fjallabyggðar

Tryggvi Þór Herbertsson þingmaður sjálfstæðisflokksins reit grein í blað flokksins í síðustu viku undir heitinu „Fall Fjallabyggðar“ (finn því miður ekki tengil á greinina). Þar lýsir hann framtíðarsýn sinni á byggðina þar nyrðra ef gerðar verða breytingar á lögum um stjórn fiskveiða.

Tryggvi Þór er heilt yfir ágætur náungi, tekur sjálfan sig ekkert of alvarlega, er með ágætan húmor og í eðli sínu göslari og breyskur maður eins og við hin.

Nema hvað?

En hann hefur auðvitað sínar veiku hliðar eins og aðrir. Hann er t.d. afleitur spámaður um framtíðina eins og dæmin sanna sem hefur varpað eilitlum skugga á fræðimanninn í honum. Svo er honum illa við fortíðina og vill helst ekki ræða hana sem er auðvitað ákveðin löstur á honum sem stjórnmálamanni enda ræðst framtíðin oftar en ekki á því sem liðið er.

Saga Fjallabyggðar (áður Siglufjarðar og Ólafsfjarðar) ætti því að getað gefið okkur einhverja sýn inn í framtíðina.

Í byrjun tíunda áratugarins bjuggu um 3.000 manns í Fjallabyggð. Þetta var á þeim tíma sem 12 ára valdatíma sjálfstæðisflokksins stóð yfir. Þegar honum lauk

var íbúatalan komi niður í rétt ríflega 2.000 manns. Hafði sem sagt fækkað um nærri þriðjung á þessum 12 árum.

Hvernig gat þetta gerst? Hvað olli því að fall Fjallabyggðar var svona gríðarlegt á svo stuttum tíma?

Það var vegna viðbragðsleysis stjórnvalda við fólksflóttanum af landsbyggðinni.

Það var vegna svikinna loforða um bættar samgöngur.

Það var vegna afskiptaleysis stjórnvalda vegna minni fiskafla.

Það var vegna afskiptaleysis stjórnvalda vegna breytinga í sjávarútvegsmálum.

Það var vegna svikinna loforða um opinber störf.

Það var vegna svikinna loforða um framhaldsskóla.

Það var vegna stefnu stjórnvalda í byggðamálum.

Svo dæmi séu tekin.

Menntaskólinn á Tröllaskaga var settur á laggirnar í Fjallabyggð eftir Hrun, eftir að sjálfstæðisflokkurinn hrökklaðist frá völdum. Sú ákvörðun var tekin af núverandi menntamálaráðherra eftir endalaus svik fyrrum ráðherra (nokkra) árin þar á undan. Unga fólkið hefur loksins möguleika á að mennta sig í heimabyggð í stað þess að flytja að heiman.

Samgöngur komust loksins í betra horf, sveitarfélögin sameinuðust og það sköpuðust möguleikar og tækifæri sem áður hafði verið haldið föngnum vegna samgönguleysis.

Það er nú loksins farið að draga úr fallinu í Fjallabyggð eins og sést á línuritinu hér að ofan sem tekið er af vef Hagstofu Íslands.

Saga Fjallabyggðar er saga sveitarfélaga allt í kringum landið. Þá sögu eiga þeir að kynna sér sem nú spá þeim byggðum dauða og djöfli.

Líka félagi Tryggvi Þór Herbertsson.