Þingmenn ræða nú tillögu um fyrirhugaðar breytingar á stjórnarráðinu. Eins og venjulega leggst stjórnarandstaðan gegn öllum slíkum breytingum og telja mikið óráð að ráðast í slíkar breytingar. Þar fara sjálfstæðismenn fremstir meðal jafningja enda líta þeir svo á að það styttist óðum í að þeir fari aftur að spora út ganga stjórnarráðsins. Þá vilja þeir fá „eign sína“ ósnerta til baka.
Þegar hefur verið ráðist í umfangsmiklar breytingar á stjórnarráðinu með sameiningu og fækkun ráðuneyta. Má þar nefna sameiningu heilbrigðis- og félagamálaráðuneyta í Velferðarráðuneyti og dóms- samgöngu- sveitarstjórnar- og mannréttindaráðuneyta í Innarnríkisráðuneyti.
Í þeirri tillögu sem nú er rædd á þinginu er stefnt að því að fækka ráðuneytum úr tíu í átta með því að sameina sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og iðnaðarráðuneytið í nýtt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og færa verkefni efnahags- og viðskiptaráðuneytis til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis annars vegar og fjármálaráðuneytis. Þá er einnig ráðgert að efla
umhverfisráðuneytið og breyta nafni þess í umhverfis- og auðlindaráðuneyti.
Ein megin niðurstaða Rannsóknarskýrslu Alþingis að stjórnsýsla ríkisins hafi verið meira og minna í molum. En skýrsla sú er víst enn eitthvað að þvælast fyrir þingmönnum sjálfstæðisflokksins. Það var síðan undirstrikað í yfirheyrslum yfir Geir H Haarde fyrir Landsdómi að mikil óreiða var innan stjórnarráðsins, verkaskipting langt því frá á hreinu og ábyrgðasvið ráðherra óskýr.
Það er því í ljósi reynslunnar full þörf á að því að bæta stjórnsýslu ríkisins og gera hana skilvirkari og betri en hún hefur verið.