Innanríkisráðherra sagði í gær að hann teldi rétt að svipta þær útgerðir veiðileyfi sem hefðu brotið gjaldeyrislög og að slíkt refsiákvæði þyrfti að koma inn í ný lög um stjórn fiskveiða.
Í frumvarpinu sem nú liggur fyrir Alþingi er kafli um viðurlög á brotum á lögunum (greinar 41 – 42) þar sem segir m.a. að veita skuli áminningu eða afturkalla veiðileyfi ef brotið hefur verið gegn lögum um stjórn fiskveiða eða öðrum lögum um fiskveiðistjórn. Jafnframt segir að brot gegn lögunum varði sektum og jafnvel allt að sex ára fangelsi ef um stórfelld og ítrekuð brot sé að ræða.
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að gefin séu út sérstök nýtingarleyfi til þeirra sem fá aðgang að nýtingu fiskistofna. Í þeim leyfum verður síðan nánar tiltekið hvaða skilyrði aðilar þurfa að uppfylla til að fá nýtingarleyfi og þá sömuleiðis viðurlög við brotum á þeim skilyrðum. Það verður því vel séð fyrir því í lögunum og nýtingarleyfunum að allir standi sína plikt og uppfylli þær
kröfur sem til þeirra eru gerðar.
Það er hinsvegar langsótt að mínu mati að svipta aðila veiðileyfum vegna brota á öðrum lögum en þeim sem varða stjórn fiskveiða eins og talað hefur verið um. Það væri líkt því að svipta atvinnubílstjóra ökuleyfi vegna brota á lögum um gjaldeyrismál eða bakara leyfum sínum vegna brota á umferðarlögum.
Svoleiðis gera menn ekki.