Atli Gíslason segir að vinnulagið á þingi sé ömurlegt vegna þess hvað mörg mál hafi komið til þings síðustu dagana fyrir páskafrí. Til að undirstrika það er leitað álits hjá stjórnmálafræðingi á hægrivæng stjórnmálanna, sem tekur auðvitað undir með Atla. En ef málið er skoðað betur kemur eftirfarandi í ljós:
Á yfirstandandi þingi hafa verið lögð fram 216 mál á Alþingi, þar af komu 24 frá ríkisstjórninni á síðustu dögunum fyrir páskafrí
eða 11% málanna. Önnur mál komu frá þingmönnum. Öll málin voru lögð fram innan tiltekins tíma sem Alþingi hefur ákveðið sjálft að skuli gera og getið er um í þingskaparlögum (37.gr.). Atli Gíslason var einn af 49 þingmönnum sem samþykktu
breytingar á lögum um þingsköp Alþingis þann 11. júní 2011. Enginn þingmaður greiddi atkvæði gegn málinu.
Hvað er svona ömurlegt við það þingið fari að þingsköpum? Af hverju er þetta túlkað með þeim hætti að framkvæmdarvaldið sé að valta fyrir löggjafarvaldið eins og stjórnmálafræðingurinn gerir? Er með þessu verið að segja að Alþingi hafi sett sjálfu sér og knappann tíma í þingsköpum til að fjalla um og afgreiða mál? Ef svo er – þá þarf þingið endurskoða þingsköpin. Það hefur hinsvegar ekkert að gera með framlagningu mála frá ríkisstjórn eða þingmönnum að þessu sinni enda eru öll málin komin fram innan þeirra tímamarka sem þingið sjálft setti sér – með liðsinni Atla Gíslasonar.
Það er eðlilegt að fólk sem fylgist með þingstörfum úr fjarlægð eins og þau Atli Gíslason og Stefanía Óskarsdóttir gera, dragi rangar ályktanir af störfum þingsins og álit þeirra sé litað af afstöðu þeirra til stjórnarflokkanna.
Það geta góðir fréttamenn hinsvegar ekki leyft sér að gera.