Skömm sjálfstæðisflokksins

Sjálfstæðisflokkurinn hafði sigur í baráttu sinni gegn því að þjóðin geti haft áhrif á mótun nýrra stjórnarskrár landsins. Þeir hafa áður unnið slíka sigra líkt og þegar þeir tóku þingið í gíslingu vorið 2009 þegar gerð var heiðarleg tilraun til að breyta stjórnarskránni. Það er því skýr og einbeittur vilji Sjálfstæðismanna á þingi að koma í veg fyrir allar breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins. Þeir eru reyndar á móti öllum breytingum sem þeir standa ekki sjálfir að. Þeir hafa lagst gegn öllum breytingum af öllu tagi sem ráðist hefur verið í frá Hruni.

Í kvöld varð sjálfstæðisflokkurinn sér til ævarandi skammar á þinginu. Þingmenn flokksins kjöftuðu þingmál um þjóðaratkvæðagreiðslu um breytingar á stjórnarskránni í kaf í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að málið næði fram að ganga. Sjálfstæðismenn einir þingmanna stóðu vörð um gamla Ísland á Alþingi í kvöld. Gamli spillti valdaflokkurinn gerði hvað hann gat til að koma í veg fyrir að þjóðin gæti tekið skref fram á við, inn í nýja tíma, frá rústunum sem sjálfstæðisflokkurinn skildi eftir sig. Ólíkt Framsóknarflokknum og Hreyfingunni sem vildu ljúka málinu með atkvæðagreiðslu í kvöld og færa þjóðinni vald til að hafa áhrif á sín stærstu mál, lagðist sjálfstæðisflokkurinn gegn öllu slíku. Sjálfstæðisflokkurinn einn flokka á Alþingi hafnaði því að gera samkomulag um að ganga til atkvæða og beitti pólitískum klækjabrögðum í þeim tilgangi þegar efnisleg röksemdarfærsla þraut.

Heiftin og óvild sjálfstæðismanna í garð þings og þjóðar endurspeglaðist líklega best í orðum Jóns Gunnarssonar undir lok umræðunnar: „Þegar lýðræðið og kommúnisminn mætast, þá þarf lýðræðið að víkja.“

Fáir eru jafnfærir um að túlka sálarlíf sjálfstæðisflokksins en Jón Gunnarsson og fáir endurspegla betur ólguna í innyflum flokksins og sársaukan sem hann þarf að líða fyrir að vera utan stjórnarráðsins en téður Jón. Það verður aldrei af honum tekið.

En þrátt fyrir að pólitískir svartstakkar sjálfstæðisflokksins hafi unni orustu gegn þjóðinni þá munu þeir tapa stríðinu. Það hefur á endanum alltaf orðið hlutskipti pólitískra ofbeldisseggja að verða undir í slagsmálum við sína eigin þjóð.

Það verður engin breyting á því núna.