Framsóknarmenn í gjaldmiðlavanda

Framsóknarmenn eru nokkuð frjóir í umræðunni um efnahagsmál þessi misserin. Sér í lagi eru þeir þó áhugasamir um gjaldmiðilinn okkar og þá helst hvort rétt sé að skipta honum út fyrir annan og þá væntanlega betri gjaldmiðil. Í því sambandi hafa þeir velt upp hugmynd um að Ísland taki upp kanadískan dollar.

Framsóknarmenn hafa sem sagt ekki trú á íslensku krónunni.

Samhliða þessum vangaveltum um að skipta út ótrúverðum gjaldmiðli fyrir annan betri gagnrýna framsóknarmenn alla aðra sem leyfa sér að efast um krónuna okkar. Þá heitir það að tala krónuna niður. Nær væri að tala hana upp að þeirra mati og bæta því við að við verðum að tala vel um krónuna til að fá aðra til að trúa því að hún sé góður gjaldmiðill.

Það má eitt og annað um þetta að segja.

Í fyrsta lagi ber það ekki vitni um traustan gjaldmiðil ef hægt er að tala hann ýmist upp eða niður eftir því hvað menn vilja hverju sinni. Traustur

gjaldmiðill stendur af sér ræðuhöld af því tagi á meðan hinir lélegu bogna.

Í öðru lagi á íslenska krónan ekki við ímyndarvanda að etja sem hægt er að lagfæra með frekari kynningu á henni. Gjaldmiðillinn okkar, íslenska krónan, á

við raunverulegan vanda að stríða eins og reyndar efnahagsmál þjóðarinn í heild sinni. Vandi krónunnar er sá að virði hennar var svo til eyðilagt með fordæmalausri efnahagsstjórn sem lauk með fullkomnu hruni haustið 2008. Það verður ekki endurheimt með því að við ein þjóða heims tölum vel um gjaldmiðilinn okkar.

Virði gjaldmiðils ræðst af efnahagsstefnu stjórnvalda og aga í ríkisfjármálum. Þar biðum við sem þjóð alvarlega hnekki sem að öllum líkindum verða til þess að

krónan okkar blessuð heyrir fljótlega sögunni til enda að niðurlotum komin. Er það þó langt í frá alvarlegasta afleiðing Hrunsins.

Það er tómt mál að halda því fram að upptaka nýs gjaldmiðils muni ein og sér færa okkur inn í betri tíma í efnahagslegu tilliti.

Það mun langvarandi trúverðug efnahagsstjórn hinsvegar gera og aðeins með þeim hætti mun það verða raunverulegur valkostur að taka upp nýjan gjaldmiðil í stað krónunnar.

Við munum þurfa að nota krónuna okkar þangað til, hvað sem hver segir.