Sjálfstæðisflokkurinn á hrós skilið

Ég er frekar spar á að hrósa sjálfstæðisflokknum, skiljanlega. Kannski þarf maður að gera skoða hug sinn betur hvað það varðar. En nú er sem sagt komið að því.

Alþingi samþykkti á mánudaginn breytingu á lögum um gjaldeyrishöft. Markmið lagasetningarinnar er að koma í veg fyrir að braskarar geti nýtt sér glufu í lögunum til að koma gjaldeyri úr landi. Jafnvel gat það gerst að þessir aðilar gætu myndað nokkurskonar hringrás fjármuna inn og út úr landinu í þeim tilgangi að hagnast verulega á braskinu. Það hefðu þeir gert á kostnað þjóðarinnar, almennings og fyrirtækja í landinu sem hefðu þurft að þola enn lægra gengi krónunnar, hækkun verðbólgu og vaxta auk annarra meina sem það brask hefði leitt af sér. Lagabreytingin var því nauðsynleg aðgerð til að vera almenning í landinu og stöðva braskarana. Í atkvæðagreiðslu um málið kom hinsvegar í ljós hvar rætur stjórnmálamanna liggja, hvar bakland flokkanna lúrir og hverra hagsmuna þeir gæta á Alþingi. Lagabreytingin fór í gegn með atkvæðum stjórnarflokkanna, hjásetu framsóknarmanna og í andstöðu við sjálfstæðisflokkinn. Þannig tók sjálfstæðisflokkurinn afstöðu með fjárhagslegu baklandi sínu, bröskurunum og gegn almenningi. Það er virðingarvert þegar stjórnmálamenn standa fast á sínu og hvika hvergi í afstöðu sinni til manna og málefna eins og sjálfstæðismenn gerðu í þessu máli.

Þeir eiga hrós skilið fyrir að vera óragir að standa með sínum.