Alþingi ákvað í morgun að standa við fyrri ákvörðun þingsins um að ákæra fyrrum formann sjálfstæðisflokksins fyrir þær sakir sem á hann voru bornar í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis sem síðar voru staðfestar af sérstakri þingnefnd, kenndir við Atla Gíslason. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar í morgun var afdráttarlaus, 33 þingmenn töldu rétt að halda málinu áfram en 27 vildu hætta við. Þannig hefur stuðningur við málssóknina aukist frá árinu 2010. Þingmenn úr öllum flokkum, nema sjálfstæðisflokknum studdu áframhald málsóknarinnar. Það sýnir betur en flest annað að í augum sjálfstæðismanna er um að ræða pólitísk réttarhöld gegn einum af þeirra kyni en ekki dómsmál byggt á góðum gögnum og af vandlega hugsuðu máli.
Alþingi ákvað haustið 2008 að setja lög um Rannsóknarnefnd Alþingis sem falið var að rannsaka orsök og aðdraganda efnahagshrunsins og leita svara við því hverjir kunni að bera ábyrgð á því. Rannsóknarnefndin skilaði þinginu ítarlegri skýrslu um málið sem þingið setti í hendur á sérstakri þingnefnd sem rannsakaði enn frekar pólitíska þátt málsins. Sú nefnd, sem starfaði undir forystu Atla Gíslasonar, lagði til að fjórir fyrrverandi ráðherrar ríkisstjórnar sjálfstæðisflokks og Samfylkingar yrðu ákærðir fyrir ýmsar sakir. Alþingi ákvað hinsvegar að láta nægja að ákæra fyrrverandi forsætisráðherra og þar við sat.
Alþingi sjálft bar því ábyrgð á málinu allt frá haustinu 2008 til dagsins í dag og hvert skref var vel valdað með ákvörðunum þingsins hverju sinni.
Það er því ólíku saman að jafna því máli sem þingið vísaði frá í dag sem framreitt var af formanni sjálfstæðisflokksins til varnar fyrrum formanni sínum. Þar með var reynt að gera málið flokkspólitískt en sem betur fer sá meirihluti Alþingis til þess að það tókst ekki.
Alþingi er því ekki alls varnað.