Efnahagshrunið 2008 tekur á sig ýmsar myndir og engin þeirra fögur á að líta. Nú hefur það komið fram að veruleg fjölgun hefur orðið hjá eldra fólki sem er í verulegum vanskilum. Auknar skuldir í kjölfar Hrunsins auk skertrar lífeyrisgreiðsla af sömu ástæðum hefur leitt til þess að sumum eldri borgurum er ókleift að standa við skuldbindingar sínar og ná endum saman. Þeim fjölgar sem fara á eftirlaun með íbúðaskuldir á bakinu, íbúðalán sem stórhækkuðu í Hruninu. Þetta er ein af verstu afleiðingum þess vonda fjármálakerfis sem innleitt var hér á landi og leiddi til Hrunsins. Ungt fólk á þó ævina framundan og möguleika á því að vinna sig út úr vandanum þó það taki langan tíma og verði öllum þungbært. Eldra fólk sem þegar hefur skilað sínu og er farið út af vinnumarkaðinum er í verri stöðu hvað þetta varðar. Það var haft eftir upplýsingafulltrúa Umboðsmanns skuldara á dögunum að eldra fólk í þessari stöðu sé bæði dapurt og reitt og skilji ekki hvernig það geti verið komið í þessa stöðu eftir að hafa verið á vinnumarkaðinum öll þessi ár. Það er nauðsynlegt að bregðast við vanda sístækkandi hópi eldra fólks sem sér ekki lengur fram á það áhyggjulausa ævikvöld sem það ætlaði sér. Það á allt annað og betra skilið en það sem hrunverjarnir færðu þeim í eftir sukktímabilið.