Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fundaði í morgun um tillögu formanns sjálfstæðisflokksins um að falla frá málsókn á hendur fyrrverandi forsætisráðherra. Gestir fundarins voru þau Sigríður Friðjónsdóttir saksóknari Alþingis og Helgi Magnús Gunnarsson varasaksóknari. Þau voru þeirrar skoðunar að Alþingi gæti afturkallað málsóknina ef það vildi.
Það eru hinsvegar ekki rök að gera allt sem maður má gera. Spurningin er á hvaða forsendum það er gert.
Það kom mjög skýrt fram í máli gestanna að engar þær grundvallarbreytingar hefðu orðið á málinu sem gefur ástæðu til að falla frá málsókninni.
Þetta er eitt af grundvallaratriðum málsins.
Það kom einnig fram á fundinum að hér væri um alvarlegt sakamál að ræða en ekki annað.
Það er einnig eitt af grundvallaratriðunum.
Það kom fram að öll óvissa í málinu væri vond, t.d. sú sem nú er uppi með tillögu formanns sjálfstæðisflokksins.
Þetta er sömuleiðis eitt af grundvallaratriðum málsins.
Ef Alþingi hættir við málsóknina verður sú ákvörðun því ekki byggð á málefnalegum ástæðum - heldur pólitískum.
Það er líka eitt af grundvallaatriðum málsins.
Í grundvallaratriðum eru því engar málefnalegar forsendur til að falla frá málsókninni.
Það er aðalatriði málsins.