Ég sat ásamt Ögmundi Jónassyni ráðherra fyrir svörum á fundi um þingsályktunartillögu formanns sjálfstæðisflokksins um Geirs H Haarde. Það var um margt skemmtilegt. Ég skýrði þau rök sem lágu fyrir afstöðu minni í málinu þegar Alþingi ákvað að ákæra Geir H Haarde fyrrverandi forsætisráðherra og hversvegna rangt sé að fella þá ákæru niður í dag. Rökin eru tiltölulega einföld. Rannsóknarnefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram komu við rannsókn málsins taldi nefndin að ráðherrann fyrrverandi hefði brotið lög og jafnvel stjórnarskrá ásamt því að hafa með aðgerðum sínum og aðgerðarleysi stefnt íslenska ríkinu í hættu. Eða svo segir í gögnum málsins, Rannsóknarskýrslunni (bls. 31-47) og ákærunum sjálfum.
Þetta er ekki pólitísk niðurstaða heldur niðurstaða viðamestu rannsóknar sem farið hefur fram á þessu sviði hér á landi. Þetta er ekki pólitísk niðurstaða og þar af leiðandi ekki pólitískt dómsmál. Það er ekki verið að rétta yfir pólitískri hugmyndafræði eða stjórnmálaflokki. Réttarhöldin snúast ekki um pólitískt uppgjör við Hrunið.
Málflutningurinn snýst um meint grafalvarleg lögbrot með gríðarlegum afleiðingum fyrir okkur öll sem rétt reynist.
Enn hafa ekki komið fram nokkur gögn sem hafa hnekkt þeim sem fyrir lágu í málinu eða orðið til þess að slíkar grundvallarbreytingar hafi orðið á því að rétt sé að fella það niður. Ekkert í nálægð við það kom fram á annars ágætum fundinum í gær.
Þvert á móti styður allt við það að leiða það til lykta í þeim farvegi sem það er. Saksóknari óskar ekki eftir því að fella málið niður. Landsdómur vill ekki vísa málinu frá.
Það er aðeins sjálfstæðisflokkurinn (með óvæntum liðstyrk) sem vill ekki af pólitískum ástæðum að málið verði upplýst fyrir opnum tjöldum, líklega af ótta við að Pandóruaskja flokksins verði opnuð upp á gátt. Það er pólitísk afstaða sem hefur ekkert með málatilbúnaðinn sem slíkan að gera.
Í máli sem þessu þurfa þingmenn sem aðrir að taka sjálfa sig frá málinu en vega það og meta þess í stað út frá gögnum og rökum í stað pólitískra afstöðu sinnar og tengsla.
Getum við það? Hafa stjórnmálamenn eitthvað lært líkt og þeir krefjast öðrum?
Eða höfum við hlekkjað okkur endanlega við þá stjórnmálamenningu sem að lokum færði okkur fram að bjargbrúninni?
Uppgjörið við Hrunið verður ekki leitt til enda fyrir Landsdómi. Það er miklu stærra en svo.
En við gerum heldur ekki upp við fortíðina án þess.
Þetta mun allt taka tíma eins og okkur reynslumeiri á þessu sviði hafa áður sagt.
En það mun takast þó svo að á stundum verði fyrirstöðurnar á leiðinni erfiðar yfirferðar og reynt sé að spilla málum með ýmsum hætti.
Þetta er spurning um uppgjör eða uppgjöf.