Skipulagður misskilningur?

Ragnheiður Ríkharðsdóttir er einn öflugasti og um leið skemmtilegasti þingmaður sjálfstæðisflokksins og nýtur virðingar fyrir störf sín langt út fyrir raðir flokksins. Hún er að oftast málefnaleg í rökræðum (þó það brenni stundum við hjá henni eins og hjá öðrum) og það er sérstaklega tekið eftir því hversu vel henni ferst það úr hendi að stýra fundum þingsins og hafa góða stjórn á þingmönnum úr stóli forseta þegar á það reynir.

Ég sé að hún hefur misskilið umræðuna um hugsanlega dagskrártillögu vegna tillögu Bjarna Benediktssonar um að forða fyrrum formanni flokksins undan dómi. Með slíkri tillögu væri alls ekki verið að vísa málinu frá eða að koma í veg fyrir eðlilega umræðu um það. Þvert á móti færi umræðan fram eins og áður hafði verið boðað og þegar henni lýkur mun þingið taka ákvörðun um framhald þess, annaðhvort með því að vísa því til áframhaldandi umfjöllunar í þingnefnd eða heimila landsdómi að halda því áfram og ljúka því.

Það er nú ekki flóknara en það.

Hinsvegar virðist þessi skilningur hinnar annars ágætu Ragnheiðar Ríkharðsdóttur hafa náð að skjóta rótum í umræðunni. Það mætti jafnvel halda að það væri með ráðum gert.

Nokkurskonar skipulagður misskilningur.

Myndin hér að ofan mun vera tekin af Ragnheiði á einhverjum ESB fundi hjá Samfylkingunni en skoðanir hennar á ESB ku víst falla sem flís við rass að stefnu Samfylkingar í þeim efnum.