Fyrirhugaðar breytingar í stjórnarráðinu varðandi sameiningu ráðuneyta eru liður í því að endurskipuleggja og styrkja stjórnsýsluna frá því sem verið hefur. Það blasir við að lítil og fámenn ráðuneyti með þrönga og afmarkaða málaflokka á sinni könnu eru ekki líklega til afrek eins og sagan sínir. En þetta hefur farið öfugt ofan í þá sem telja sig eiga þröngra hagsmuna að gæta. Þeir geta ekki hugsað sé að stjórnsýslan styrkist og ráðuneyti eflist. Það dregur úr vægi hagsmunaaðilana og heftir áður greiðan aðgang þeirra í stjórnarráðið. Samtök iðnaðarins hafa sent frá sér ályktun þar sem fyrirhuguðum breytingum er mótmælt og þeim fundið allt til foráttu. Samtökin vilja engu breyta og telja að núverandi fyrirkomulag sé það besta sem völ er á. Þau óttast um sinn hag. Sama má segja um félaga LÍÚ sem fullyrða að breytingarnar muni veikja atvinnulífið vegna þess hvað hið nýja Atvinnuvegaráðuneyti verður öflugt og stórt. Þá verði vægi þeirra minna innan ráðuneytisins. Þeir halda því fram að verið sé að leggja sjávarútvegsráðuneytið niður með því að færa verkefni frá því til annarra ráðuneyta, s.s. þau sem snú að rannsóknum og ráðgjöf um nýtingu sjávarauðlinda. Segja að með því sé verið að slíta hjartað úr ráðuneytinu. LÍÚ telur hinsvegar ráðlegast að leggja Umhverfisráðuneytið niður enda sé það á móti öllu. Samtök atvinnulífsins eru á svipaðir línu og óttast mjög aukin styrk Umhverfisráðuneytisins með breytingunum og að vægi atvinnumála muni veikjast með því að færa þau inn í eitt ráðuneyti. (Þáttastjórnendur Bylgjunnar virðast hinsvegar hafa mestar áhyggjur af því að það verði Steingrímur J. Sigfússon sem fari með atvinnumálin en ekki einhver annar eins og heyra mátti í þætti þeirra í vikunni – en það er nú önnur saga).
Fyrir örfáum árum voru sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytin sameinuð í eitt ráðuneyti. Fyrsti ráðherra í því ráðuneyti var Einar Kristinn Guðfinnson. Þá töluðu einhverjir um að verið væri að leggja sjávarútvegsráðuneytið niður og aðrir um að með því væri landbúnaðarráðuneytið lagt niður. Ég hef engan heyrt tala um það að skipta þessum ráðuneytum aftur upp. Um síðustu áramót voru Heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytin sameinuð í eitt Velferðarráðuneyti. Ég hef ekki heyrt tillögur um að slíta það aftur í sundur. Samgöngu- sveitarstjórna- dóms- og mannréttindaráðuneytin voru sameinuðu um síðustu áramót í eitt Innanríkisráðuneyti. Hef engan heyrt mæla með því að skipta því aftur upp.
Allt hefur þetta gengið bærilega fyrir sig og er merki um að stöðugt er unnið er að því að bæta stjórnsýsluna og gera hana skilvirkari. Og alltaf leggjast sömu aðilar gegn breytingunum og telja hagsmunum sínum ógnað.
Þeir eru því miður enn til sem leggjast af alefli gegn öllum breytingum og gera hvað sem þeir geta til að verja ríkjandi fyrirkomulag. Þeir trúa því að það verði ekki betra en það er. Það er engu líkara en þeir hinir sömu telji sig hafa náð einhverskonar stjórnsýslulegri fullnægingu sem þeir vilja ekki að bundinn verði endir á.
Það er ekki mikil framtíð í því.