Þær breytingar sem gerðar hafa verið á ríkisstjórn Íslands verða til þess að styrkja málefnastöðu hennar frekar en áður. Breytingarnar miða að því að stilla upp okkar sterkasta liði, jafnt í ríkisstjórn og á þingi í þeim tilgangi að takast á við þau verkefni sem enn eru óleyst og þarfnast lausnar áður en kjörtímabilinu líkur. Stóru verkefnin snúa m.a. að breytingu á stjórnarskrá landsins, fiskveiðistjórnunarkerfinu, atvinnumálum, umhverfismálum og nýtingu auðlinda. Ekkert af þessu mun verða að veruleika án núverandi ríkisstjórnar. Verkefnin snúa ekki síður að því að halda utan um og treysta í sessi þann mikla árangur sem náðst hefur við að rétta fjármál ríkisins við eftir efnahagshrun hægrimanna og takast áfram á við afleiðingar þess fyrir almenning, heimilin og fyrirtækin í landinu. Uppgjörið við hrunið verður að ljúka á tímabilinu, jafnt hið efnislega sem og það sem snýr að stjórnmála- og viðskiptalífinu. Framtíðin ræðst af því að raunverulegt uppgjör fari fram um þá atburði sem leiddu okkur til þess veruleika sem við höfum verið að fást við frá haustinu 2008. Ráðherraembætti eru stórlega ofmetin. Ríkisstjórn og ráðherrar eru í raun aðeins vinnumenn Alþingis og hafa það verkefni helst að koma í framkvæmd því sem þingið ákveður hverju sinni. Fari þetta ekki eins og til er ætlast grípur þingið til sinna ráða eins og margsinnis hefur gerst í gegnum tíðina.
Vinstri græn og Samfylking hefur stillt upp því liði sínu sem líklegast er til að ná árangri í þeim mikilvægum verkefnum sem framundan eru. Framundan eru spennandi tímar í stjórnmálunum á Íslandi. Þeir snúast um framtíðarskipulag stóru málanna, innviðanna í íslensku samfélagi.
Þeir sem vilja taka þátt í að koma þeim í höfn eru boðnir velkomnir í hópinn með okkur hinum.