Ég hef kynnst mörgum skemmtilegum karakterum í gegnum tíðina, ekki síst þeim sem ég hef verið með til sjós. Hér kemur einskonar jólasaga af einum slíkum:
Á einu skipinu var vélstjóri sem var afar áhugasamur um heilbrigt líferni, sérstaklega þó það sem við setjum ofan í okkur. Hann var með ræktun í vélarrúminu á allskyns grösum og fæðu sem hann át í flest mál og reyndi sömuleiðis að koma ofan í okkur hina, með takmörkuðum árangri. Man ég eftir því að hann talaði mikið um Ann Wigmore sem leiðtoga sinn í þeim efnum en ég þekki hvorki haus né sporð á henni. Hann sagðist einnig vera fremstur Íslendinga í stólpípumeðferð en þá fræði ásamt öðrum þessu tengdu hafi hann lært í Ameríku og náð miklum árangri í. Hann var óþreytandi að ræða um gildi stólpípumeðferðar og þá einkanlega að henni væri beitt með réttri aðferð. Í þeim misskilningi sínum að við hinir værum jafn áhugasamir skellti hann einu sinni spólu í vídeótækið í matsalnum þar sem sýnt var mjög nákvæmlega hvernig ætti að bera sig að með stólpípuna og hvað þyrfti að varast. Þegar ég segi mjög nákvæmlega þá á ég nákvæmlega við það – mjög nákvæmlega. Ég get alveg lofað ykkur því að þetta var ekki mynd við hæfi í matsal nokkurs skips.
En hvað um það.
Við vorum á landleið eitt sinn úr síðasta túr ársins. Áttum að leggjast að bryggju að kvöldi 22. desember. Vélstjórinn góði tilkynnti okkur þá um að við ættum von á jólagjöf frá honum sem biði okkar á bryggjunni þegar við kæmum í land. Jólagjöfina ættum við að gefa konum okkar og fylgja leiðbeiningum þar um sem hann var búinn að setja upp á auglýsingatöflu áhafnarinnar í setustofu skipsins. Ég átti lengi vel þessar leiðbeiningar en hef nú glatað þeim. Í stórum dráttum voru leiðbeiningarnar þær að við áttum að merkja pakkann með nafni „elskunnar okkar“, máttum ekki kíkja í pakkann og setja hann skilyrðislaust undir jólatréð um leið og við kæmum heim. Það sem mestu máli skipti, að mati vélstjórans var að gjöfinni fylgdi góður hugur af okkar hálfu og traust til hans um að við værum að gera hið eina rétta. Það var þetta síðastnefnda sem gerði mig tortrygginn. Það rifjaðist upp fyrir mér ræktunin í vélarrúminu, of margir stólpípufyrirlestrar í stakkageymslunni og vídeóið góða í matsalnum. Ég hét því sjálfum mér og vélstjóranum því að aldrei myndi ég setja með óskoðaða gjöf frá honum til konu undir jólatréð á mínu heimili.
Til að gera langa sögu stutta þá lenti gjöfin sem mér var ætluð handa konu minni á vergangi og komst ekki í mínar hendur áður en ég fór heim og fór því aldrei neitt lengra í það skiptið. Ég fékk hinsvegar fljótlega fréttir af því frá skipsfélögum mínum að það hafi víða orðið uppi fótur og fit þegar konur hinna auðtrúa félaga minna opnuðu pakkann sinn sem í var heimatilbúin stólpípa – með ítarlegum notkunarleiðbeiningum. Það fylgdi sögunni að „elskurnar okkar“ hafi ekki allar verið jafn kátar með jólagjöfina frá sínum en það er nú bara eins og gengur í þeim efnum.
Á endanum komst stólpípan sem minni var ætluð sér á réttan stað – þá meina ég til þeirrar sem átti að fá hana – en meira veit ég ekki.
Þess má geta að í kjölfarið spruttu upp allskonar stöðvar um land allt sem tekist hefur að laða fólk til sín til í iðrahreinsun með ágætis árangri að því að mér skilst. Vélstjórinn góði stoppaði hinsvegar stutt við um borð í skipinu hjá okkur. Síðar komst ég að því að það var allt satt og rétt sem hann hafði sagt okkur um áhugamál sín um grasarækt og fleira og hann er talin vera framarlega í þeim efnum og það á heimsvísu. Líka í stólpípufræðum.
Að þessari óviðeigandi ekki-jólasögu sagðri, óskar ritstjórn bvg.is lesendum sínum gleðilegra jóla.