Í fyrra lagði ég fram þingsályktunartillögu þar sem lagt var til að Alþingi fæli skrifstofustjóra Alþingis að fara þess á leit við ríkissaksóknara að dregnar yrðu til baka þær ákærur á hendur sk. níumenningum sem snéru að meintu broti þeirra gegn valdstjórninni, brotum gegn stjórnskipan landsins og jafnvel landráði. Þetta voru ákærur byggðar á afar umdeildum lagagreinum sem ávalt og ævinlega hefur verið til vansa að styðjast við svo sjaldan sem gripið hefur verið til þeirra.
Tillagan fékk heldur dræmar undirtektir á þinginu, m.a. frá þessum þingmanni hér sem taldi tillöguna ekki þingtæka og aldeilis fráleitt að þingið sendi út þau skilaboð að þingið treysti ekki ákæruvaldinu. Þar fyrir utan væri um að ræða íhlutun í framkvæmdarvaldsaðgerð, sem þingmaðurinn taldi alveg ótækt. Fleiri tóku undir þetta, t.d. þessi hér og þessi og þessi á meðan aðrir voru ýmist annarrar skoðunar eins og þessi hér og síðan þessi ágæti þingmaður sem öðrum fremur er oftast réttsýnn og sanngjarn í málatilbúnaði sínum. Viðbrögð fleiri þingmanna má sjá hér.
Forseti þingsins sagðist þá ekki vera búin að taka afstöðu til málsins. Það er síðan skemmst frá því að segja að málið var ekki talið þingtækt og komst þ.a.l. aldrei á dagskrá þingsins. Ég man ekki til þess að leitað hafi verið til lögfræðinga af hálfu þingsins vegna þess eins og nú tíðkast að gera í öðru sambærilegu máli. Sjálfur sá ég aldrei neitt slíkt og afstaða þingsins varðandi þetta mál aldrei útskýrð fyrir mér sem eina flutningsmanns tillögunar eða um mig samið um meðferð málsins – eins og nú er gert.
Í tuttugusta og öðrum kafla í Passíusálmum Sr. Hallgríms Péturssonar, Um krossfestingarhróp yfir Kristó segir:
„Hvað höfðingjarnir hafast að
hinir meina sér leyfist það.“
Kannski er það þetta sem málið snýst um af hálfu Alþingis, annarsvegar varðandi flutningsmenn tillagnanna tveggja sem virðast fá sinn hvora hanteringuna hjá þinginu og hinsvegar hinna sem ákærðir voru í þessum tveim málum sem virðast heldur ekki eiga að fá sambærilega meðhöndlun á sínum málum?
Þeir virðast því enn lifa góðu lífi Jónarnir tveir, Séra Jón og svo hinn venjulegi Jón – hver sem það nú er.