Ný þöggunar aðferð virðist vera að ryðja sér til rúms hér á landi, með misjöfnum árangri þó. Nú hóta aðilar út tilteknum kreðsum samfélagsins öllum málsókn vegna meintra ærumeiðinga ef andað er í áttina til þeirra. Flestir muna ef til vill eftir málssókn Jóns Ólafssonar á hendur kunnum háskólaprófessor fyrir fáum árum og það fyrir erlendum dómstólum. Frekar ógeðfelld mál að mínu mati. Nú nýlega tapið svo Jón Ásgeir Jóhannesson máli gegn Svavari Halldórssyni, hinum síkvika og skemmtilega fréttamanni RÚV. Svavar var reyndar ekki eins heppin í öðru máli sem Pálmi Haraldsson sótti hann til saka fyrir og vann.
Gunnlaugur M Sigmundsson hefur sömuleiðis hafið málssókn gegn Teiti Atlasyni bloggara fyrir að rifja upp atvinnu- og efnahagssögu Sigmundar og svo hefur undirrituðum verið hótað málssókn af þingmanni sjálfstæðisflokksins eins og frægt var. Til að fylla svo upp í félagsskap hinna móðguðu hafa svo Vítisenglar ákveðið að sækja ráðherra ríkisstjórnarinnar og fleiri til saka fyrir eitthvað sem ég hélt að þeir vildu ekkert endilega þurfa að verja í réttarsal.
Hér er aðeins fátt eitt til talið í þessum efnum, af nógu er víst að taka.
Það er eitt sem sameinar flesta þessa meiðyrðamálsmenn: Þeir voru allir hluti af hruninu með einum eða öðrum hætti – að Vítisenglum undanskildum.
En skilaboðin eru þau sömu frá þeim öllum og þau eru þessi:
Haldið ykkur á mottunni gott fólk – annars er okkur að mæta.