Ágætur sessunautur minn á Alþingi, Guðlaugur Þór Þórðarson gerði þau mistök að líkja málflutningi Oddnýjar Harðardóttur við það þegar blaðafulltrúi Saddams Hussein var að reyna að verja einræðisherrann í aðdraganda falls hans. Þannig líkti hann þingflokksformanni samfylkingar við áróðursmeistara Saddams og ráðherrum ríkisstjórnarinnar við óþokkann sjálfan.
Þetta var heldur ósmekklegt hjá Guðlaugi Þór og illa tekið í orð hans í þingsal og þá ekki síður hjá þeim fjölda Palestínumanna sem sat á þingpöllum og beið eftir að fylgjast með atkvæðagreiðslu um þingsályktun um sjálfstæði Palestínu. Sum þeirra máttu þola mikið harðræði undir ógnarstjórn Saddams Hussein og því ekki ólíklegt að þeim hafi ofboðið framganga þingmanns sjálfstæðisflokksins.
Sennilega var það þó ekki meiningin hjá félaga Guðlaugi Þór að ganga þetta langt í offorsi sínu gegn stjórnaliðum. Líklegra er að hann hafi í ógáti flutt það inn í sali þingsins sem þetta fólk hendir sín á milli sér til gamans og sé partur af grófum gálgahúmor þeirra sem ekki á erindi utan veggja Valhallar.
En rétt eins og Árni Þór Sigurðsson sagði um ummæli Guðlaugs Þórs þá er það oft hjartanu kærast sem tungunni er tamast.
Guðlaugur Þór Þórðarson bað Oddnýju og þingið á endanum afsökunar á orðum sínum sem hann sagðist iðrast að hafa látið frá sér fara.
Það var gott hjá honum.