Kjarninn segir hér frá býsna merkilegu máli sem hefur fengið litla athygli. Í stuttu máli felldi Héraðsdómur Reykjavíkur úr gildi ákvörðun ríkissaksóknara sem hafnaði beiðni einstaklings (sem samkvæmt Kjarnanum er Gísli Reynisson) um að fram færi rannsókn á því hvort æðstu embættismenn Seðlabanka Íslands hefðu borið viðkomandi röngum sökum um refsivert athæfi. Dómarinn, Skúli Magnússon, sér ástæðu til að undirstrika sérstaklega í dóminum alvarleika þess ef einhver kemur því til leiðar að „ … með rangri kæru, röngum framburði, rangfærslu eða undanskoti gagna, öflun falsgagna eða á annan hátt, að saklaus maður verði sakaður um eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað.“
Það er nokkuð skýrt að dómarinn telur það ekki hafið yfir vafa að í einhverjum tilfellum kunni einstaklingar vísvitandi að hafa verið bornir röngum sökum af æðstu embættismönnum Seðlabanka Íslands. Því fellur hann ákvörðun ríkissaksóknara um að hafna rannsókn á embættisfærslum þeirra úr gildi.
Nú eru rétt um þrjár vikur síðan þessi dómur var kveðinn upp, dómur sem ég tel að gæti haft talsverðar afleiðingar í för með sér.
Mér vitanlega hefur enginn fjölmiðill utan Kjarnans fjallað um þetta mál.