Mér sýnist sem fleiri flokkar geri nú út á persónudýrkun en oft áður. Lengst af var pólitísk persónudýrkun hluti af eðlilegri kosningabaráttu hægrimanna en nú virðist þetta ná yfir sviðið allt. Leiðtogarnir eru teknir út fyrir sviga og á köflum mætti halda að aðrir skipti litlu sem engu máli. Það er engu líkara en kosningarnar séu að snúast upp í keppni á milli einstaklinga frekar en annað. Það er vont og leggst illa í mig. Persónudýrkun er veikleikamerki hópsins og beinir athyglinni frá meginatriðum í átt að hinum dýrkaða sem hafinn er yfir eðlilega gagnrýni. Persónudýrkun grefur því undan lýðræðislegu starfi.
Af langri reynslu hef ég komist að því að það hefur aldrei reynst innistæða fyrir persónudýrkun. Enginn sem á vegi mínum hefur orðið og hefur ýmist hafið sig yfir aðra eða verið settur á stall og dýrkaður hefur átt innistæðu fyrir því.
Dramb er falli næst.