Þetta er m.a. það sem vitað er um snúning erlendra vogunarsjóða á Arion banka:
1. Kaupendurnir eru þegar í hópi stærstu eigenda bankans í gegnum Kaupþing (Kaupskil) sem á 87% í bankanum. Þeir eru því að kaupa af sjálfum sér.
2. Vogunarsjóðirnir gæta þess að halda eignarhlutum sínum rétt undir 10% markinu til að komast undan eftirliti FME.
3. Eigendur vogunarsjóðanna gæta þess einnig að eignarhlutur þeirra sé undir 10% markinu í sjóðunum sjálfum til að komast undan eftirliti FME.
4. Hægt er að rekja slóð sumra sjóðanna og/eða eigenda þeirra til skattaskjólslanda.
5. Einn vogunarsjóðanna sem hér um ræðir hefur verið fundinn sekur um stórfellda spillingu og hefur þurft að greiða háar upphæðir af þeim sökum. Sami sjóður var nýlega metinn í ruslflokk af alþjóðlegu matsfyrirtæki.
6. Goldman Sachs er það fjármálafyrirtæki sem almennt er talið vera einn stærsti gerandinn í efnahagshruninu 2008.
7. Stjórnarmaður í einum sjóðnum (Goldman Sachs) hefur verið sakaður um þrælahald og að bera með aðgerðum sínum ábyrgð á dauða a.m.k. 90 verkamanna í Kasakstan.
8. Goldman Sachs varð uppvíst að því að aðstoða grísk stjórnvöld við að falsa bókhald ríkisins fyrir fáum árum.
9. Tímaritið Forbes sagði ábyrgð stjórnenda Goldman Sachs á efnahagshruninu 2008 svo mikið að réttast væri að tjarga eigendur þess og fiðra fyrir vikið (Goldman should be tarred and feathered over the 2008 meltdown).
10. Bankastjóri Arion banka hefur fagnað kaupum þessara aðila á bankanum og talið það til merkis um traust á bankanum og íslensku efnahagslífi.
11. Fjármálaráðherra hefur fagnað breyttu eignarhaldi vogunarsjóðanna á Arion banka og sagt það vera viðurkenningu fyrir Ísland.
12. Forsætisráðherra hefur manna mest fagnað snúningi vogunarsjóðanna á Arion banka sem hann segir vera bæði til vitnis um styrkleikamerki fyrir fjármálakerfið og tímamótauppgjör við Hrunið.
Niðurstaðan af þessu er því sú að ef kaup vogunarsjóðanna á Arion banka ná fram að ganga er vægt til orða tekið verið að hafa okkur að fíflum.
En það væri svo sem ekki í fyrsta skipti sem það yrði gert.
Okkar er valið.