Ríkisstjórnin er vikugömul í dag. Þetta var það helsta sem heyra mátti af vígstöðvum stjórnarinnar á afmælisdaginn:
Sigríður Andersen dómsmálaráðherra boðar hertar aðgerðir gegn hælisleitendum.
Sendiherra Breta á Íslandi telur engin tormerki á góðu samstarfi við Ísland vegna Brexit enda ný ríkisstjórn sjálfstæðisflokksins í Brexitliðinu.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra fagnar mjög útgöngu Breta úr ESB og sér tækifæri í því fyrir Ísland og reyndar heiminn allan.
Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra vill aukið gagnsæi í bókhaldi ríkisins og boðar einkavæðingu bankanna.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra neitar að mæta fyrir þingnefnd til að ræða skattaskjólsskýrsluna sína.
Nú er slétt vika liðin frá því að ríkisstjórn sjálfstæðisflokksins með stuðningi Bjartrar framtíðar tók formlega við völdum. Það verður ekki sagt að það sé mikil stemning yfir stjórnarliðum. Í stuttu máli virðist enginn vera ánægður, enginn glaður eða spenntur yfir nýju ríkisstjórninni fyrir utan Guðlaug Þór og Sigríði Andersen. Þvert á móti skín óánægja og vonbrigði úr hverjum svip stjórnarliða.
Sama virðist vera uppi á teningnum hjá kjósendum ef marka má vikugamla skoðanakönnun mmr.is. Þar kemur fram að allir þrír stjórnarflokkarnir hafa tapað miklu fylgi frá kosningum eða um fimmtungi þess fylgis sem þeir höfðu og eru nú aðeins með 39% stuðning kjósenda á bak við sig. Tveir stjórnarflokkanna eru við það að þurrkast út af þingi. Vinstri græn er eini flokkurinn sem eykur fylgi sitt frá kosningum og það um 50%, úr 16% í 24%.
Þetta er skiljanlegt.