Óttarr Proppé og félagar í Bjartri framtíð eru harðlega gagnrýndir fyrir tvennt. Annars vegar fyrir að renna fyrirstöðulítið saman við Viðreisn og hitt að reyna stjórnarmyndun við sjálfstæðisflokkinn. Þetta er þó bæði skiljanlegt og klókt hjá Óttari og félögum að mínu mati.
Fyrir það fyrsta lifði Björt framtíð rétt naumlega af í kosningunum, fékk fjóra þingmenn kjörna. Þeir eru einir og sér ekki líklegir til að hafa mikil áhrif. Það var því í raun bráðnauðsynlegt fyrir flokkinn að finna sér makker eftir kosningarnar til að auka áhrif sín. Við það styrktist staða Bjartrar framtíðar mjög, reyndar svo mikið að flokkurinn er við það að setjast í ríkisstjórn og hafa áhrif sem slíkur.
Ásakanir á hendur Bjartrar framtíðar um svikabrigsl og þjónkun við aðra flokka er bæði ósanngjörn og ótímabær a.m.k. þar til mynduð hefur verið ríkisstjórn.
Kjósendur sendu stjórnmálamönnum þau skilaboð í kosningunum að þeir ættu að ræða sig til lausna. Óttarr Proppé og félagar hafa meðtekið þau skilaboð. Stjórnarsáttmáli næstu ríkisstjórnar verður málamiðlun á milli þeirra flokka sem mynda stjórnina. Þannig hefur það alltaf verið og þannig verður það alltaf. Í því felast engin svik heldur undirstrikar það vilja og getu þeirra sem stýra flokkunum til að miðla málum og hafa áhrif á stjórn landsins. Stjórnmálamenn sem ekki eru reiðubúnir að miðla málum komast aldrei til áhrifa. Þeir láta hinum eftir völdin.
Óttarr Proppé er klókari stjórnmálamaður en ég hélt.
Mynd af heimasíðu Bjartrar framtíðar.