Sjómenn eru farnir í verkfall. Það gera þeir ekki að gamni sínu heldur af illri nauðsyn eftir að hafa verið samningslausir í nærri 6 ár. Það er þyngra en tárum taki að útgerðarmenn hafi frekar kosið að láta sigla fiskiskipaflotanum í land í stað þess að semja við sjómenn. Eftir því sem mér skilst strandar á því að útgerðarmenn neiti að semja við sjómenn um eðlilega mönnun á skipum sínum sem að mati sjómanna eru undirmönnuð.
Síðasta sjómannaverkfalli lauk með því að Árni M. Mathiesen, þáverandi sjávarútvegsráðherra, lagði fram lagafrumvarp um að banna verkfallið sem síðan var samþykkt. Við sjómenn siglum síðan, líkt og oft áður, út á sjó aftur með lagasetningu á hryggnum. Vonandi gerist það ekki aftur.
Í þessu sama verkfalli héldu sjómenn í Ólafsfirði Reiðileysishátíð, nokkurs konar samstöðuhátíð. Upp úr þeirri hátíð gaf svo hljómsveitin Roðlaust og beinlaust út sinn fyrsta geisladisk. Sá diskur heitir „Bráðabirgðalög“ með vísan til þess að kjaradeilur sjómanna og útgerðarmanna hafa oftar en ekki verið barðar niður með lagasetningum.
Kannski er kominn tími til að telja í aftur?