Einar Kristinn Guðfinnsson, þingmaður sjálfstæðisflokksins og forseti Alþingis, gerði á sínum tíma sendibréf Víglundar Þorsteinssonar að sérstöku þingmáli. Víglundur hélt því fram að stór hópur fólks, embættismanna, stjórnmálamanna og lögmanna innanlands sem utan hefði bæði blekkt þjóðina og svikið hana um mörg hundruð milljarða króna. Þrátt fyrir að augljóst væri að um tóma vitleysu var að ræða tók Einar Kristinn þetta upp á sína arma í krafti embættis síns og vísaði bréfi Víglundar til rannsóknar í þingnefnd. Niðurstaða þingnefndarinnar kom ekki á óvart.
Nú gerist það að tveir þingmenn skrifa nokkurra síðna skjal um sama mál. Skjal sem þeir hafa sjálfir kostað til og kynna í nafni þingnefndar. Þeir láta sem um þingskjal sé að ræða og að baki því sé mikil rannsóknarvinna. Annað er nú komið í ljós. Af þeirra hálfu er fyrst og síðast um að ræða persónulega óvild þeirra, allt að því hatur í garð fyrrverandi fjármálaráðherra, Steingríms J Sigfússonar. Í þeim leiðangri láta þessir tveir þingmenn tilganginn helga meðalið.
Þá gerist það að forseti þingsins Einar Kristinn Guðfinnsson ver tvímenningana í stað þess að snupra. Hann finnur ekkert að því að þingmenn birti prívatskoðanir sínar sem þingskjal sem aldrei hefur komið fyrir þing eða þingnefnd og misnoti aðstöðu sína í þinginu til að kynna afurðina.
Einar Kristinn Guðfinnsson er að mörgu leyti ágætur stjórnmálamaður en þó fyrst og síðast flokksmaður og liðsmaður líkt og vel má sjá í þessu máli. Þess vegna ver hann sitt fólk jafnvel þó vitleysan leki af því. Þannig á það ekki að vera þegar um forseta Alþingis er að ræða.
Hann á að verja þingið.