Á síðasta kjörtímabili var starfandi fjölmennur starfshópur sem vann að endurskoðun laga um stjórn fiskveiða. Í þessum hópi áttu sæti aðilar tengdir sjávarútveginum frá ýmsum hliðum og stjórnmálamenn allra flokka sem sæti áttu á Alþingi. Starfshópurinn gekk undir heitinu „Sáttanefndin“ og var Guðbjartur Hannesson, þingmaður Samfylkingarinnar, formaður hans.
Niðurstaða hópsins var afgerandi:
„Meirihluti starfshópsins telur rétt að gerðir verði samningar um nýtingu aflaheimilda og þannig gengið formlega frá því að auðlindinni sé ráðstafað af ríkinu gegn gjaldi og að eignarréttur ríkisins sé skýr. Samningarnir skulu m.a. fela í sér ákvæði um réttindi og skyldur samningsaðila, kröfur til þeirra sem fá slíka samninga, tímalengd og framlengingu samninga, gjaldtöku, aðilaskipti, ráðstöfun, aflahlutdeilda sem ekki eru nýttar, meðferð sjávarafla o.fl..“ (bls. 15).
Undir þetta skrifuðu fulltrúar allra aðila sem sæti áttu í hópnum að undanskildum fulltrúa Hreyfingarinnar. Formaður og varaformaður starfshópsins skiluðu síðan fyrir hönd hans skýrslu til sjávarútvegsráðherra með þeim skilaboðum að ráðherrann skipi starfshóp beggja stjórnarflokka sem vinna ætti að nýrri lagasetningu um stjórn fiskveiða sem byggði á niðurstöðum starfshópsins. Þetta finnst mér þurfa að hafa í huga núna þegar sjávarútvegsmál virðast enn og aftur geta orðið að kosningamáli. Ég hef vissan skilning á því að stjórnmálamenn og flokkar sem eiga í vök að verjast reyni nú að marka sér sérstöðu með einhverjum hætti í þeim tilgangi að auka fylgi sitt. Það verður samt ekki mjög trúverðugt þegar litið er til þess að sömu flokkar og sama fólk komst að ákveðinni niðurstöðu um þau mál fyrir örfáum árum.
Fulltrúar stjórnmálaflokka í starfshópnum sem stóðu að niðurstöðunni voru:
Guðbjartur Hannesson (S)
Björn Valur Gíslason (V)
Lilja Rafney Magnúsdóttir (V)
Svanfríður Jónasdóttir (S)
Einar Kr. Kristinsson (D)
Gunnar Bragi Sveinsson (B)
Aðrir í hópnum sem stóðu að niðurstöðu hans voru:
Aðalsteinn Baldursson - Starfsgreinasambandið
Arthur Bogason - Landssamband smábátaeigenda
Árni Bjarnason – Farmanna- og fiskimannasamband Íslands
Sævar Gunnarsson - Sjómannafélags Íslands
Guðmundur Ragnarsson - Félag vélstjóra- og málmtæknimanna
Friðrik Jón Arngrímsson - LÍÚ
Adólf Guðmundsson - LÍÚ
Arnar Sigurmundsson - Samtök fiskvinnslustöðva.